sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil áta en enginn makríll

Guðjón Guðmundsson
3. júní 2021 kl. 07:00

Huginn VE er glæsilegt skip. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Huginn og Kap VE leita makríls suður af landinu.

„Í þessum töluðu orðum erum við 150 sjómílur beint suður af Eyjum en fórum lengst suður að landhelgislínunni. Við köstuðum einu sinni á eitthvert lóð en það var ekkert að hafa. En trollið var allt þakið af átu. Það eru átuflekar víða í hafinu en sjórinn er kaldur. Við komumst hæst í 9,4 gráður alveg syðst í landhelginni en þetta þyrfti að vera einhvers staðar yfir tíu gráðunum. Þessi loftkuldi og norðanáttir sem voru allan maímánuð hafa þessi áhrif,“ segir Guðmundur Ingi Guðmundsson, skipstjóri á Huginn VE, uppsjávarskipi Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Guðmundur Ingi segir að stefnt sé að fara í vestur jafnvel út að Reykjanesi en leitað sé á þessum hefðbundnu slóðum þar sem makríllinn gerir oft fyrst vart við sig. Kap VE er í sömu erindagjörðum en fór ekki jafn langt suður og Huginn heldur meira til austurs.

„Við verðum að vera bjartsýnir og bara það að við erum farnir af stað sýnir að við erum bjartsýnir. Við gátum svo sem sagt okkur að ekki væri á vísa að róa því það vantar bara meiri hlýindi. Það er dálítið í þennan hlýjari sjó þarna sunnan við landhelgi. Ég ætla svo sem ekki að segja með algjörri vissu að þarna sé enginn fiskur. Makríllinn er fljótur í förum. Það er engin vissa fyrir því að ekki sé kominn makríll núna þar sem við köstuðum á mánudag og fengum ekkert.“

Huginn og Kap fóru til makrílleitar áður en gefinn var út kvóti fyrir íslensku skipin en Vinnslustöðin átti um 2 þúsund tonn af ónotuðum heimildum frá því í fyrra.

„Við byrjuðum um miðjan júní fyrra þannig að við erum í fyrra fallinu núna. Við höfum samt áður byrjað að leita fyrir sjómannadag en það er nokkuð langt síðan það var,“ segir Sindri Viðarsson, framkvæmdastjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar.

Sindri segir erfitt að ráða í næstu daga og vikur. Sjórinn sé kaldari núna en þegar farið var af stað í fyrra og það geti hugsanlega breytt göngu makrílsins. Engu að síður virðist vera talsvert líf í hafinu og áta sem er góð teikn. Sjávarútvegsráðherra skrifaði undir reglugerð um makrílafla íslenskra skipa um hádegisbilið á þriðjudag. Heimilt verður að veiða tæp 141 þúsund tonn á þessu ári sem er 16,5% af samþykktum heildarafla á vettvangi Norðaustur-Atlantashafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC, eins og verið hefur undanfarin ár. Sindri segir að þessi ákvörðun sé í samræmi við það sem menn hafi átt von á.

Baráttan um brauðið

Alþjóðahafrannsóknaráðið, ICES, hefur lagt til að aflinn á þessu ári fari ekki yfir 852 þúsund tonn sem er 8% minni afli en á árinu 2020. Nú hafa Norðmenn ákveðið einhliða að makrílkvóti þeirra verði í ár tæp 300 þúsund tonn sem er um 35% af heildarkvótanum í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES. Hlutur Norðmanna hefur verið 22,5% af ráðgjöf ICES síðastliðin sjö ár.

Um þetta segir Sindri að ekki sé gott að samningar náist ekki milli strandríkjanna um nýtingu á makrílstofninum. Veiðar hafa verið langt umfram ráðgjöf ICES mörg undanfarin ár og var tæplega 600 þúsund tonnum yfir ráðgjöf árið 2018. Í framhaldi var MSC-vottun veiðanna felld niður í mars 2019. Sindri segir að niðurfelling MSC-vottunarinnar hafi ekki haft mikil áhrif fyrir markaði Vinnslustöðvarinnar en hugsanlega komi þaðguð öðrum þjóðum í koll, ekki síst Norðmönnum.

Guðmundur Ingi á von á því að það verði barátta um brauðið í Síldarsmugunni í sumar ef allir verði þar af fullum þunga. Þar megi búast við Norðmönnum og Færeyingum af fullum þunga og Rússunum fari sífellt fjölgandi. „En það er oft bara gaman af því að fá áskoranir af þessu tagi,“ segir Guðmundur Ingi.