sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikil tækifæri í vinnslu á aukaafurðum í Bandaríkjunum

30. júní 2018 kl. 14:00

Um 1,5 milljónum tonna fleygt á hverju ári


Mikil tækifæri eru í vinnslu á aukaafurðum sjávarfangs í Bandaríkjunum. Þar er að minnsta kosti 1,5 milljónum tonna af aukaafurðum fleygt á ári hverju. Hugsanlegt væri að framleiða úr þessu verðmæti að upphæð 655 milljónir dollara, eða rúman 71 milljarð ÍSK. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Húna Jóhannessonar hjá Arctica Finance og Þórs Sigfússonar, stofnanda Sjávarklasans.

gugu@fiskifrettir.is

Árið 2015 voru Bandaríkin fimmti stærsti fiskframleiðandi heims og sá þriðji stærsti hvað veiðar varðar. Landað var 4,4 milljónum tonnum af sjávarfangi árið 2016 að verðmæti um 5,4 milljarðar dollara. Að meðaltali neyttu Bandaríkjamenn 6,8 kg af fisk og skelfisk á árinu 2016.

Fram kemur að 58% af öllum afla árið 2016 var landað í Alaska, eða rúmum 2,5 milljónum tonna, sem stóð þó einungis fyrir 29% af verðmætum upp úr sjó. Skýringin á þessu er að uppistaðan í aflanum er Alaskaufsi sem er verðminni tegund. Þannig nam veiði á Alaskaufsa 1.522 þúsund tonnum árið 2016 sem var 34,9% af öllum veiddum afla en verðmæti hans var þó ekki nema 7,9% af heildarverðmætunum. Til samanburðar þá var nálægt þriðjungi minna magni landað af rækju en verðmætin voru nær 10% af heildarverðmætunum.

35% fleygt samkvæmt FAO

Í greiningunni er vikið að námundun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO), sem metur að 35% af lönduðum afla sé hent sem á móti þýðir 65% nýtingu á afla.

Miðað við nálgun FAO um 65% nýtingu er um 1,5 milljónum tonna af aukaafurðum fleygt í Bandaríkjunum árlega. Í greininni segir að rannsóknir hafi sýnt að á Íslandi sé um það bil 77-80% af þorski nýtt. Samanburður á nýtingarhlutfalli á fiski í Bandaríkjunum og Íslandi leiði í ljós þau tækifæri sem eru fyrir hendi í virðiskeðjunni vestanhafs. Verðmæti aukaafurða þorsks á Íslandi er talið vera allt að 2 dollarar á hvert kílógramm. Lengi hafi verið talið að lítil verðmæti væru fólgin í aukaafurðum og þær einkum nýttar í beitu og mjöl- eða fóðurframleiðslu. Á undanförnum árum hafi hins vegar orðið vitundarvakning í nýtingu aukaafurða, m.a. til framleiðslu á verðmætari afurðum, eins og gelatíni, kollageni og kítósan.

Greinarhöfundar segja að ef sjávarútvegur í Bandaríkjunum næði að auka verðmæti úr vinnslu aukaafurða þannig að hann yrði helmingur þess sem Íslendingar fá út úr hverju kílógrammi gæti það leitt til 655 milljóna dollara verðmætaaukningar fyrir bandarískan sjávarútveg.

Niðurstöður greinarhöfunda eru þessar: Sé gengið út frá því að 35% aukaafurða sé hent nemur það á hverju ári um 1,5 milljónum tonna. Væri þetta allt nýtt til mjölframleiðslu yrði verðmætaaukningin að minnsta kosti 393 milljónir dollara. Yrði nýtingarhlutfall í Bandaríkjunum, sem er áætlað um 65% samkvæmt FAO, aukið í 80%, eins og það er á Íslandi, leiddi það til nýtingar á 655 þúsund tonnum af aukaafurðum sem aftur leiddi til 169 milljón dollara verðmætaaukningar miðað við mjölverð. Tækist Bandaríkjamönnum að ná helmingi af verðmætum Íslendinga af nýtingu aukaafurða fyrir þessi 655 þúsund tonn leiddi það til 655 milljóna dollara verðmætaaukningar.