laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill áhugi á að veiða makríl á handfæri

1. maí 2009 kl. 09:00

Smábátasjómenn á Hornafirði sjá fram á ný verkefni í framtíðinni við veiðar á makríl á handfæri. Gera má ráð fyrir því að ekki færri en 6 smábátar fari á þessar veiðar í sumar samkvæmt upplýsingum Fiskifrétta.

Veiðar á makríl á handfæri eru nýjung hér á landi. Tveir smábátar riðu á vaðið með þessar veiðar haustið 2007. Þeir fóru í örfáar veiðiferðir en aflinn var lítill sem enginn enda langt liðið á haustið. Í fyrrasumar gerðu fjórir bátar, þrír frá Hornafirði og einn frá Djúpavogi, tilraun til makrílveiða í stuttan tíma og fékkst ágætisafli þegar best lét.

,,Hér er töluverður hugur í mönnum. Í það minnsta hjá þeim sem prófuðu makrílveiðar í fyrrasumar. Þeir fara allir af stað aftur í sumar og líklega nokkrir fleiri,“ sagði Unnsteinn Þráinsson, útgerðarmaður og skipstjóri á Sigga Bessa SF á Hornafirði, í samtali við Fiskifréttir en hann er einn þeirra sem veiddu makrílinn á handfæri í fyrra.

Unnsteinn sagðist hafa byrjað veiðarnar í lok ágúst í fyrra og þá var langt að sækja enda var makríllinn farinn að fjarlægjast landið. Hann gerði ráð fyrir að hefja veiðarnar upp úr miðjum júní í sumar. ,,Ég fékk 5 tonn af makríl á handfærin í fyrra og það er í það minnsta nóg til að sanna fyrir mér að þetta er hægt. Ef veiðin gengur vel í sumar og ágætisverð fæst fyrir makrílinn má búast við því að margir bátar snúi sér að makrílveiðum á sumrin,“ sagði Unnsteinn.