föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill áhugi á makrílveiði

16. maí 2013 kl. 10:29

Makríll á handfæri

84 skip án vinnslu sóttu um leyfi og 239 skip sóttu um leyfi til handfæraveiða

 

Mikill áhugi er á makrílveiðum. Alls sóttu 323 skip um leyfi til veiða úr tveimur pottum sem úthlutað er úr, þ.e. potti fyrir skip án vinnslu og potti fyrir handfæri. Hinir tveir pottarnir, þ.e. fyrir aflareynsluskip annars vegar og frystiskip hins vegar eru lokaðir.

Sótt var um leyfi til makrílveiða í flokknum án frystingar fyrir 84 skip. Til skipta milli þeirra eru 6.703 tonn af makríl. Skip 200 brúttótonn eða stærri eru 64 og koma tæp 99 tonn í hlut hvers þeirra. Undir þessari stærð eru 20 skip og koma tæp 20 tonn í hlut hvers þeirra, að því er fram kemur á vef Fiskistofu.

Sótt var um leyfi til makrílveiða með línu og handfærum fyrir 239 skip. Af þessum fjölda hafa verið sendir út greiðsluseðlar vegna 118 skipa, sem fá leyfi þegar leyfisgjald hefur verið greitt. Af umsækjendum eru 98 skip ekki með haffæri sem gildir 1. júlí, en þann dag má hefja makrílveiðar með línu og handfærum. Ekki verða gefin út leyfi til þeirra fyrr en það skilyrði er uppfyllt. Þá eru 23 af þeim skipum sem sóttu um nú þegar með strandveiðileyfi og því er ekki unnt að gefa út leyfi til þeirra fyrr en 1. september.