laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill sparnaður á nýjum Herjólfi

Guðsteinn Bjarnason
2. mars 2020 kl. 07:00

Nýr Herjólfur kom til Vestmannaeyja síðastliðið sumar. MYND/Óskar P. Friðriksson

Þetta fullyrti Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, á málþingi sem fram fór í Þekkingarsetri Vestmannaeyja í síðustu viku.

„Fyrir rekstrarfélagið skiptir þetta gríðarlega miklu máli. Þetta er enginn smá mismunur,“ sagði Guðbjartur.

Jafnvel þegar nýjum Herjólfi er siglt á olíu þá er olíukostnaðurinn á þessari siglingaleið 34 prósent minni heldur en á gamla Herjólfi. Þetta er 14,2 sjómílna leið samtals og tekur siglingin um 80 mínútur.

Guðbjartur Ellert segir það hafa komið á óvart hve rafvæðing Herjólfs hefur skilað miklum ávinningi.

„Það er alveg ljóst að rekstrarávinningurinn er griðarlega mikill.“

1500 milljónir á tíu árum

Á ársgrundvelli sagði hann rekstrarkostnað nýja Herjólfs, þess fjórða í röðinni frá upphafi, metinn um 53 prósent lægri ef eingöngu er siglt á rafmagni, og er þá gert ráð fyrir því að siglt sé 71 dag á ári til Þorlákshafnar.

Ávinningurinn af því að geta siglt eingöngu til Landeyjahafnar yrði því mun meiri, enda þá hægt að nota rafmagnið eingöngu.

„Miðað við reynslu og endurgjöf frá kerfum Herjólfs IV má vænta þess að yfir 10 ára tímabil geti fjárhagslegur ávinningur verið allt að 1.500 mkr. Sem þýðir að hægt er að auka þjónustu og tryggja betri samgöngur milli Vestmannaeyja og lands – á vistvænni, innlendri og ódýrri orku,“ sagði Guðbjartur.

Ákjósanlegt í ferjusiglingum

Hann sagði þessar tölur jafnframt sýna hve ákjósanlegt það væri að vera með rafknúin skip í ferjusiglingum almenn hér við land, „að öllu jöfnu.“

Þá sagði hann ríkisvaldið eiga að vera leiðandi í innleiðingu orkuskipta í sjávarútvegi og hafi það í hendi sér hve hratt þau umskipti geti orðið.

Nýr Herjólfur kom til Vestmannaeyja síðasta sumar eftir ýmsar tafir sem urðu á afhendingu skipsins. Áfram urðu tafir vegna viðgerða en nú er komin nokkur reynsla á nýja skipið og strax hægt að leggja mat á reksturinn.

Málþingið var haldið á vegum Hafsins Öndvegisseturs og var umfjöllunarefnið vistvænar lausnir í sjávarútvegi. Þetta var annar viðburðurinn í málþingaröð Hafsins sem stendur fram á næsta haust.

Auk Guðbjarts fluttu þar erindi þau Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, og Anna Margrét Kornelíusdóttir, nýr framkvæmdastjóri Hafsins Öndvegisseturs. undarstjóri var Sigríður Ragna Sverrissdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hafsins, en hún er gengin til liðs við Klappir Grænar lausnir, sem er hugbúnaðarfyrirtæki á sviði snjallrar umhverfisstjórnunar.