fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikill verðmunur er á makríl milli Noregs og Íslands

29. september 2016 kl. 12:00

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Verð á norskum makríl hækkar um 28% milli ára.

Makrílveiðar Norðmanna standa nú sem hæst. Mikill verðmunur er á makríl í Noregi og á Íslandi, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.  

Í síðustu viku veiddu norsk skip 52.700 tonn af makríl sem er litlu minni afli en á sama tíma 2015 sem var stærsta vika makrílvertíðarinnar það árið.

Það sem af er makrílvertíðinni hafa 133 þúsund tonn farið í gegnum sölukerfi norska síldarsamlagsins. Meðalverðið er 10,23 krónur norskar á kíló, eða rúmar 144 krónur íslenskar. Hér er um töluverða hækkun á meðalverði að ræða frá sama tíma í fyrra. Þá höfðu verið seld rúm 184 þúsund tonn af makríl og meðalverðið var 7,98 krónur á kíló, tæpar 113 krónur íslenskar. Hækkun á meðalverði á makríl milli ára í Noregi er því 28%.

Verð á makríl í fyrra var töluvert hærra í Noregi en á Íslandi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar var landað hér um 168 þúsund tonnum af makríl árið 2015 og aflaverðmæti í heild var 10,4 milljarðar króna. Meðalverðið hér var því tæpar 62 krónur á kíló, eða um 46% lægra en í Noregi. Hafa verður í huga að á Íslandi eru landanir vinnsluskipa á makrílafurðum inni í aflaverðmæti.

Hagstofan hefur ekki birt tölur yfir aflaverðmæti makríls það sem af er vertíðinni í ár. Hins vegar hefur komið fram að handfærabátarnir hafa verið að fá í kringum 60 krónur fyrir kíló af makríl í sumar.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.