mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mikilvægt að ráðgjöf hvíli á traustum grunni

5. nóvember 2019 kl. 14:00

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum hefur verið framkvæmd með sambærilegum hætti síðan árið 1985. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Varúðarnálgun og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Á hverju ári gefur Hafrannsóknastofnun út ráðgjöf fyrir um 40 stofna þar sem mesta athyglin beinist að ráðgjöf stærstu stofnanna eins og þorsks, ýsu og loðnu.  Forsendur ráðgjafar eru ýmist hámarks afrakstur í þeim tilfellum sem hægt er að meta hann eða varúðarsjónarmið.  Yfirleitt er það þannig að þar sem mikið liggur fyrir af gögnum og vísindalegri þekkingu byggir ráðgjöfin á hámarks afrakstri.  Hinsvegar þar sem gögn eru fátækleg og minni þekking á framleiðslugetu stofns byggir ráðgjöfin á varúðarsjónarmiðum.  Ráðgjöf flestra þeirra stofna sem Hafrannsóknastofnun veitir ráðgjöf fyrir byggir á varúðarsjónarmiðum og má þar nefna stofna eins og djúpkarfa, blálöngu, þykkvalúru og skötusel.

Varúðarnálgun

Orðið varúðarnálgun er þýðing á „precautionary approach“ sem skilgreint var af Sameinuðu þjóðunum árið 1995.  Í lauslegri þýðingu er varúðarnálgun skilgreind á eftirfarandi hátt:

„Ríki skulu sýna varúð þegar upplýsingar eru óvissar, óáræðanlegar eða ófullnægjandi.  Vöntun á vísindalegum upplýsingum á ekki að nota sem ástæðu til að fresta eða grípa ekki til aðgerða til verndar eða stjórnunar".

Þetta þýðir að þegar upplýsingar eru takmarkaðar um nytjastofna þá mun ráðgjöfin verða varkárari en ella til að minnka möguleg neikvæð áhrif nýtingar.  Síðan varúðarnálgun var skilgreind hefur mikil vinna verið lögð í að útfæra hana nánar varðandi stjórnun á fiskveiðum.  Einn veigamikill þáttur var skilgreining á varúðarmörkum og gátmörkum og hvernig eigi að bregðast við fari stofn undir varúðarmörk.  Í upphafi var mesta áherslan á að útfæra varúðarnálgun á stofna þar sem hægt er að meta varúðar- og gátmörk en dæmi um slíka stofna eru þorskur og ýsa.  Á síðari árum hefur verið unnið innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) sem og annarsstaðar við að þróa aðferðir til að veita ráðgjöf í anda varúðarnálgunar um nýtingu stofna þar sem gögn eru takmörkuð og óvissa mikil.

Ráðgjöf um nýtingu stofna

Í mörgum tilfellum eru gögn um nytjastofna ekki nægjanlega góð til að hægt sé að beita tölfræðilegum líkönum til að meta stofnstærð, afrakstursgetu og varúðarmörk.  Algengast er að  ekki sé hægt að aldursgreina viðkomandi tegund eða óvissa sé uppi um vöxt og aðrar líffræðilegar forsendur. Þrátt fyrir það eru í mörgum tilfellum til umtalsverð gögn um viðkomandi tegund, t.d. stofnvísitölur eða afli á sóknareiningu, sem gefa mynd af hlutfallslegum breytingum á stofnstærð.

Af þeim 29 stofnum sem Hafrannsóknastofnun birti ráðgjöf fyrir þann 13. júní síðastliðinn flokkast 20 stofnar sem gagnarýrir og byggir ráðgjöf 14 þeirra á breytingum í vísitölum eða afla á sóknareiningu. Til samanburðar má nefna að ICES gefur ráðgjöf fyrir um 270 stofna og af þeim eru um 33% sem byggja ráðgjöfina á vísitölum en fyrir 39% stofna er hægt að meta hámaksafrakstur.

Mikil óvissa er í útreikningum á afla á sóknareiningu þar sem margir þættir geta haft áhrif.  Tæknibreytingar, tími árs, veðurfar, torfumyndun, reynsla skipstjórnarmanna og fleira getur haft umtalsverð áhrif á mat á breytingum í afla á sóknareiningu.  Þrátt fyrir að yfirleitt sé stuðst við tölfræðiaðferðir til að taka tillit til slíkra þátta þá er það erfitt og því er ávallt betra að hafa vísitölur úr staðlaðri stofnmælingu eins og stofnmælingu botnfiska (SMB) sem Hafrannsóknastofnun framkvæmir á hverju ári.

Tvær ráðgjafarreglur

Líkt og áður sagði hafa á undanförnum árum verið þróaðar aðferðir til að veita ráðgjöf fyrir stofna þar sem upplýsingar eru takmarkaðar.  Hafrannsóknastofnun hefur á undanförnum árum fylgt fordæmi Alþjóðahafrannsóknaráðsins og tekið upp ráðgjafarreglur fyrir slíka stofna.  Þar sem vísitölur eða afli á sóknareiningu er til staðar hafa verið notaðar tvær mismunandi ráðgjafareglur.  Báðar aðferðirnar hafa verið rýndar í vinnunefndum Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Niðurstaða hermilíkana þar sem tekið er tillit til óvissu í vísitölum og mismunandi líffræði tegunda er sú, að sé þessum ráðgjafareglum fylgt eru litlar líkur á því að stofnar fari niður fyrir varúðarmörk. Einn stærsti kostur við þessar ráðgjafarreglur er að útreikningur á ráðgjöf er yfirleitt einfaldur þannig að gagnsæi er um hvernig niðurstaðan er fengin.  Jafnframt tryggja ráðgjafarreglur samræmi í ráðgjöf milli mismunandi stofna.

Forsendum breytt

Í ráðgjöfinni sem birt var í júní síðastliðnum var forsendum ráðgjafar breytt í nokkrum tegundum frá því sem áður var með því að byggja ráðgjöfina á áðurnefndum ráðgjafareglum.  Í nokkrum tilfellum leiddi það til umtalsverðar lækkunar á ráðgjöf. Sem dæmi má nefna að ráðgjöf fyrir blálöngu fór úr um 1500 tonnum í tæp 500 tonn og úr ríflega 700 tonnum í 441 tonn fyrir skötusel. Hafrannsóknastofnun er meðvituð um að miklar breytingar í ráðgjöf milli ára geta verið mjög erfiðar fyrir þá sem stunda veiðar.  Hinsvegar er mikilvægt að beitt sé aðferðum sem viðurkenndar eru af vísindasamfélaginu  til að ráðgjöf hvíli á eins traustum grunni og hægt er.  Einungis þannig er unnt að veita ábyrga ráðgjöf til stjórnvalda þannig að þau geti stjórnað veiðum á nytjastofnum á sjálfbæran hátt og í samræmi við alþjóðasamninga.

Höfundur er Guðmundur Þórðarson sviðsstjóri botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar