laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Minni afli en langtum hærra verð

Guðjón Guðmundsson
17. október 2020 kl. 13:00

Geir ÞH að koma inn til hafnar á Húsavík á dögunum. Mynd/Hafþór Hreiðarsson

Aldrei meiri aflaverðmæti á snurvoðinni.

Aflaverðmæti neta- og snurvoðarbátsins Geir ÞH frá Þórshöfn hafa aldrei verið hærri á fyrsta einum og hálfum mánuði fiskveiðiársins. Aflaverðmætin eru nú jafnmikil og þau voru fyrstu þrjá mánuði fiskveiðiársins í fyrra. Sigurður Ragnar Kristinsson skipstjóri segir þokkalega veiði hafi verið en þessu miklu aflaverðmæti skýrist af óvenju háu fiskverði á mörkuðum.

„Við höfum verið mest í ýsu undanfarið. Það er nóg af henni hérna fyrir norðan,“ sagði Sigurður Ragnar þar sem hann var við veiðar í Skjálfandanum.

Hann segir minna um þorsk en ýsan veiðist vel. Þetta valdi þó ekki beinlínis erfiðleikum við veiðarnar. Skipt hefur verið út þorskkvóta fyrir ýsu en á móti kemur að leiguverð á ýsukvóta hefur hækkað. Það er nú 230-240 kr. á ýsu og 280 kr. á þorski. Leiguverðið var lágt fram að loðnubresti í hitteðfyrra. Þá var þorskurinn í 175 kr.

Alls staðar ýsa

„Þetta er fyrsta haustið sem við erum hérna fyrir norðan eftir að þessu var breytt í fyrra og miðin í kringum landið gerð að einu svæði fyrir dragnótarveiðar. Við höfum þvælst hérna víða fyrir norðan jafnt í Skagafjörð, Húnaflóa og hérna í Skjálfanda. Það er alls staðar ýsa. Við erum að reyna við þorsk líka en ekki náð að vera með nema 20-30% af þorski í löndunum upp á síðkastið.“

Geir ÞH hefur landað í Þórshöfn, Húsavík, Dalvík, Sauðárkróki og Skagaströnd. Síðustu vikuna hefur hann haldið sig í Skjálfanda og landað og Húsavík. Þeir hafa landað annan hvern dag á Húsavík og hafa þá tekið sex köst fyrri daginn og fjögur þann seinni. Fengist hafa allt upp í 11 tonn í kasti en að meðaltali hafa þetta verið 2-3 tonn í kasti undanfarið.

„Ég held að það þyrfti eitthvað að endurskoða það hvernig menn reikna út ýsukvótann. Togararallið og rannsóknir Hafrannsóknastofnunar virðast ná ákaflega illa yfir ýsuna og hefur gert það undanfarin ár. Þetta kemur auðvitað mun verr við línubátana sem leggja alla línuna og geta ekkert annað en klárað daginn í allri ýsunni sem er komin á krókana. Við getum þó alltaf hætt eftir hollið og farið eitthvert annað.“

300 tonn á fiskveiðiárinu

Sigurður Ragnar segir að verð á ýsu hafi verið í góðu lagi á mörkuðunum miðað við undanfarin ár. Oft hafi verðið lækkað mikið í september og farið niður fyrir 200 kr. kílóið. Nú hafi verðið gjarnan verið á bilinu 270 til 290 kr. kílóið og jafnvel yfir 300 kr. þegar veðrið hafi ekki verið upp á það besta. Meðalverð á þorski hafi varla farið undir 400 kr. kílóið.

„En nú er blíða hringinn í kringum landið og þá eykst framboðið á mörkuðunum og verðið lækkar hratt. Það sem hefur líka haldið uppi verðinu á ýsu er minna framboð af þorski en oftast er á þessum tíma. Það virðist almennt vera lítil þorskveiði um þessar mundir í flest veiðarfæri.“

Sigurður Ragnar segir víða síli í sjónum sem þorskurinn gæti verið í. Spurningin sem menn velti fyrir sér sé sú hvort þorskurinn sé farinn að velja sér aðra vetursetu vegna breytinga í hafinu. Nú verði vart við íslenskan hrygningarfisk við Jan Mayen og loðnu fyrir austan land á sumrin. Það sé svo margt að breytast í hafinu sem menn nái ekki alveg utan um. Þetta séu miklar breytingar á stuttum tíma. Hann telur þó að sumt af þessu sé farið að ganga til baka og vonandi fari loðnan aftur að láta sjá sig.

Geir ÞH hefur veitt yfir 300 tonn upp úr sjó á fiskveiðiárinu. Sigurður Ragnar segir fiskiríið oft hafa verið betra á þessum tíma en fiskverð hafi verið það hátt að aflaverðmætin hafa aldrei verið meiri fyrr né síðar.