sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði eftir hrygningarstopp

24. apríl 2017 kl. 16:12

Bergey VE að veiðum. Vestmannaeyjar í baksýn. Mynd/Birgir Þór Sverrisson

Vestmannaey og Bergey rótfiska dag eftir dag.

Vestmannaey VE og Bergey VE héldu til veiða að morgni föstudags að loknu hrygningarstoppi. Veiðin hófst strax af krafti og voru bæði skip komin til löndunar í Vestmannaeyjum daginn eftir með nánast fullfermi. Og áfram hélt veislan. Eyjarnar lönduðu fullfermi aftur í morgun og var uppistaða aflans ýsa og þorskur. 

Á Austfjarðamiðum hafa verið léleg aflabrögð hjá togurunum að undanförnu og því hafa austfirsku togararnir leitað á fjarlægari mið. Gullver NS hefur verið að veiðum fyrir sunnan land og er nú á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi. Barði NK hefur verið á Vestfjarðamiðum og landaði fullfermi á Dalvík í gærkvöldi. Uppistaða afla Barða var þorskur og ufsi. Blængur NK hefur að undanförnu veitt ufsa á Halamiðum og hafa aflabrögðin verið góð.

Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.