þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Mokveiði hjá Snæfellsnesbátum

16. febrúar 2016 kl. 09:48

Löndun í Ólafsvík. (Mynd: Alfons Finnsson).

Góður afli bæði í net og á línu.

 Mjög góð veiði hefur verið hjá bátum frá Snæfellsnesi að undanförnu, að sögn Hafrúnar Ævarsdóttur hafnarvarðar í Rifi í samtali á vef Skessuhorns.

Stóru netabátarnir Saxhamar og Magnús hafa verið að gera það gott. Magnús SH hefur verið með frá 9 og upp í 27 tonn eftir daginn en Saxhamar SH með minnst með 15 tonn og mest 32 tonn. Faxaborg sem rær með línu hefur  líka fengið góðan afla. Hún hefur landað þrisvar og verið með 20 til 31 tonn í róðri.

„Það var sérlega góð veiði og líflegt hér hjá okkur á fimmtudaginn. Til að mynda var Rifsari þá með 38 tonn. Stóru línubátarnir veiddu einnig vel, til dæmis landaði Tjaldur 97,4 tonnum á fimmtudaginn. Hafnartindur og Reynir Þór lönduðu báðir tvisvar þennan sama dag því það var svo góður afli í netin hjá þeim. Hafnartindur fékk 15 tonn og Reynir Þór 12,7 tonn þann dag,“  segir Hafrún.