fimmtudagur, 5. ágúst 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Vaka yfir ferðum hákarla

Guðsteinn Bjarnason
27. júlí 2020 kl. 10:00

Hákarl skorinn um borð í Ljósafelli SU. Mynd/Þorgeir Baldursson

Breski líffræðingurinn Nigel Hussay og félagar hans á Hussey Lab við Windsor-háskóla hefja brátt rannsóknir á grænlandshákarlinum, einu hákarlategundinni sem heldur sig allt lífið í köldum sjó á norðurslóðum.

Ætlunin er að merkja hákarla til að geta fylgst með ferðum þeirra og þróa aðferðir til að meta heilsufar þeirra og dánartíðni. Einnig verða skoðaðar aðferðir til að draga úr því að hákarlar komi í meðafla og ennfremur þróa aðferðir við að sleppa hákörlum sem koma í veiðarfæri aftur út í hafið og tryggja að vel sé farið með þá.

Vottunarsamtökin Marine Stewardship Council (MSC) hafa ákveðið að styrkja þessar rannsóknir enda er vottun grálúðuveiða við Kanada og vesturströnd Grænlands háð skilyrðum um að fengnar verði betri gögn um meðafla til að geta betur metið ástand hákarlsins.

„Hákarlinn er meðafli í Kanadísku veiðunum á grálúðu og þar eru skilyrði að það eigi að afla betri vitneskju um umfang meðafla og meta hvert er ástand hákarlastofnsins,“ segir Gísli Gíslason hjá MSC.

Hann segir þessa rannsókn snúast um að meta hve mikið er af hákarli í meðafla í þessum veiðum. Einnig er ætlunin að skoða hverjar lífslíkur hákarlsins sé ef honum er sleppt aftur í hafið, og ennfremur hvort hægt sé að auka þær lífslíkur.

„Jafnframt er með merkingunum lagður grunnur að frekari rannsóknum um lífshætti og stofnstærð þessa fisks. Svona rannsóknir auka þekkingu okkar á vistkerfi hafsins sem hjálpar okkur að skilja betur það flókna samspil sem er í hafinu.”

Fátt vitað

Fátt er í reynd vitað um hákarlinn, en þó er talið að hann haldi sig nærri botni sjávar en komi reglulega upp í efri lögin til að ná sér í fæðu.

Bæði Hafrannsóknastofnun og Fiskistofa taka saman tölur um hákarla í afla íslenskra skipa, en þær upplýsingar gefa takmarkaða mynd.

Tölur Fiskistofu eru byggðar á vigtun afla við löndun, auk þess sem upplýsingar eru til úr afladagbókum. Ekki hefur verið reynt að meta hversu áreiðanlegar þessar tölur eru.

Að sögn Guðjóns Más Sigurðssonar, fiskifræðings á Hafrannsóknastofnun, koma sárafáir hákarlar í troll í leiðöngrum stofnunarinnar, að meðaltali um einn á ári undanfarinn fimm ár. Svipaða sögu er að segja af skráningu eftirlitsmanna á vegum Fiskistofu, þar hafa á síðustu árum í mesta lagi einn til tveir hákarlar komið í aflann.

Skráning í afladagbókum hefur á síðustu árum hefur sveiflast frá einum hákarli upp í 14 dýr.

„Miðað við það sem er skráð af eftirlitsmönnum og í leiðöngrum okkar þá myndi maður búast við fleirum hjá flotanum, en þó erfitt að segja þar sem árstíð og svæði skipta miklu máli. Fjöldinn virðist sveiflast mikið milli ára,“ segir Guðjón.