sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Náðu að klára rétt áður en rafmagnið fór

15. maí 2013 kl. 16:14

Mjölverksmiðja HB Granda á Vopnafirði. (Mynd af vef HB Granda)

Raforkuskömmtun hafði óveruleg áhrif á kolmunnavertíðina á Vopnafirði.

,,Það má segja að við höfum svo að segja náð að klára vertíðina áður en skrúfað var fyrir rafmagnið. Við höfum keyrt fiskmjölsverksmiðjuna á svokallaðri ótryggri raforku en aldrei lent í teljandi vandræðum fyrr en nú. Við fengum að halda rafmagninu fram yfir hádegi sl. mánudag og það munaði ekki miklu að við næðum að bræða síðasta kolmunnaaflann um svipað leyti,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði í samtali á vef HB Granda. 

Svo sem fram hefur komið í fréttum er vatnsbúskapur í uppistöðulónum virkjana á Norðurlandi mun lakari en menn hafa átt að venjast undanfarin ár og því hefur þurft að grípa til skerðingar á raforku til stóriðju og fyrirtækja sem verið hafa með samninga um kaup á ótryggri raforku. Næg raforka er til í landinu en flutningsgetan frá sunnanverðu landinu og norður yfir heiðar er hins vegar ekki meiri en svo að horfur eru á að skammta þurfi raforku til stórkaupenda næstu vikurnar eða þar til að vatnsstaðan í Hálslóni og Blöndulóni kemst í eðlilegt horf.

Tekið var á móti rúmlega 19.000 tonnum af kolmunna á Vopnafirði á þeim rúma mánuði sem veiðarnar stóðu yfir en tvívegis lönduðu skip HB Granda afla í Færeyjum vegna veðurs á þessu tímabili.