föstudagur, 24. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nær fullbókað á vertíðinni og 50% fyrir næsta ár

Guðjón Guðmundsson
28. júlí 2019 kl. 07:00

Óli Freyr Arnórsson 5 ára með afa sínum, Robert Schmidt, og stórum steinbít. MYND/Robert Schmidt

Bókanir í sjóstangaveiði hjá Iceland Pro Fishing, IPF, hafa aldrei verið betri en á þessu ári.

Fyrirtækið skipuleggur pakkaferðir fyrir erlenda sjóstangaveiðimenn sem innifelur flug, gistingu og bát og hefur gert allt frá árinu 2007. Margir sem hafa nýtt sér þjónustu IPF hafa komið til að veiða á sjóstöng frá Suðureyri og Flateyri á hverju ári.

Robert Schmidt, rekstrarstjóri IPF, segir að 95% allra ferða sem í boði eru séu bókaðar á þessari vertíð sem er metbókun. Hann segir að fækkun í komum ferðamanna til Íslands hafi alls ekki komið niður á þessari grein ferðamennskunnar. Fyrir næsta ár er þegar búið að bóka í um 50% allra ferða.

16 bátar og 14 hús
2008 og 2009 gerði IPF út 22 báta en nokkuð dró úr starfseminni eftir hrun. Fyrirtækið seldi í kjölfarið sex báta en gerir nú út 16 báta. Þetta eru 16 Seiglubátar af sömu gerð með nýjum, 130 hestafla Volvo Penta vélum. Síðastliðin þrjú ár hefur IPF endurnýjað allar vélarnar eftir tólf ára notkun og á einungis eftir að setja nýjar vélar í þrjá báta. Fyrirtækið á einnig fjórtán hús á Suðureyri og Flateyri sem sjóstangveiðimennirnir gista í.

„Menn kaupa sér 8-9 daga pakkaferð til Íslands og innifalið er millilanda- og innanlandsflug, einbýlishús, bátur og bílaleigubíll meðan á dvölinni stendur. Yfirleitt eru á bilinu 3 til 5 í hverjum hóp, mest Þjóðverjar en einnig eru Austurríkismenn og Breta fjölmennir. Þetta eru miklir áhugamenn um sjóstangaveiði og af öllum stéttum. Margir hafa lagt lengi til hliðar fyrir svona ferð. Sumir koma jafnvel annað hvert ár og fara þess á milli til sjóstangaveiði við Noreg. Allt að helmingur kemur til okkar á hverju ári og sumir alveg frá árinu 2007. Hjá okkur var hópur Austurríkismanna sem hafa komið frá 2007 og þeir elstu í þeim hóp eru 85 ára. Einn gestanna sem var nýlega hjá okkur er 81 árs og hafði fengið hjartaáfall fjórum sinnum. Þetta er þessum mönnum mikil ástríða og þeir gefa ekkert eftir í sjósókninni,“ segir Robert.

Það er veiðin sjálf sem menn sækjast eftir en ekki síður að kúpla sig út úr stórborgarysnum og njóta kyrrðarinnar og náttúrunnar í Súgandafirði og Önundarfirði. Þeir ráða sjálfir sínum degi, fara á sjó þegar þeim sýnist og komi með steinbít eða þorsk í soðið að veiðum loknum.

130 tonn á vertíð
Vertíðin stendur frá apríl og fram í miðjan september. Á þessum tíma hefur veiðst um 130 tonn af fiski á stöng. IPF kaupir kvóta í gegnum Fiskistofu og til þess að fjármagna þau kaup er veiddur fiskur seldur frystihúsum eða á markaði. Það stendur undir kvótakaupunum en skapar fyrirtækinu ekki hagnað. Sjóstangaveiðimönnunum er heimilt að taka með sér fisk í soðið. Einnig stendur þeim til boðið að kaupa 20 kg af frystum, unnum fiski hjá frystihúsinu á Suðureyri  sem komið er fyrir í kælitöskum og þeir taka með sér til sinna heimalanda.

Flestir eru sjóstangaveiðimennirnir með réttindi til að stýra skemmtibátum. IPF stendur fyrir öflugri fræðslu og öryggisþjálfun sama morgun og hóparnir hefja veiðar. Farið er yfir allan öryggisbúnað og reglur. Þeir sem ekki hafa réttindi sitja námskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og taka þar próf.

Robert segir að veiðarnar hafi gengið vel að undanskildum dauðum tíma á kafla í júní sem oft er á þessum miðum. Undanfarið hafi fengist allt að 26 kg þungir þorskar um það bil 130 cm langir og einnig hafi veiðst mjög mikið af steinbít á grunnslóðinni. Sumum þyki mesta sportið að veiða steinbít. Hann sé baráttuglaðari og ófrýnilegri með sínar beittu tennur.

„Við veiddum 15 kílógramma hlýra um daginn á 25 metra dýpi á steinbítsslóðinni en það er óalgengt að hann leiti svona inn á grunnslóðina. Þetta eru sportveiðimenn og ekkert endilega að hugsa mikið um að fylla bátinn. En svo eru naglar þarna innan um sem veiða alveg 600 kíló á dag. Það eru kannski fjórar stangir í sjó og menn geta verið fljótir að fylla tvö kör ef þetta er stór fiskur. Ég er í því að færa kvóta inn á þá báta á hverjum degi,“ segir Robert.

 

Óli Freyr Arnórsson 5 ára með afa sínum, Robert  Schmidt, og stórum steinbít.

Þýsk veiðikona með 15 kílógramma hlýra. Mynd/Robert Schmidt.

Þýskur veiðimaður með 26 kg þorsk. Mynd/Robert Schmidt.

Fjórir á bát og sumir afla 600 kg á dag. Mynd/Robert Schmidt.

Rennt fyrir þann gula á lygnum firði. Mynd/Robert Schmidt.

Sjóstangaveiðimennirnir setja skemmtilega brag á bæjarlífið. Mynd/Robert Schmidt.