þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nærri helmingur fiskmetis fer til spillis í Bandaríkjunum

28. september 2015 kl. 08:00

Bandarísk skip í höfn

Vísindamenn segja að 208 þúsund tonnum af fiski hafi verið sóað á fjögurra ára tímabili

Ný rannsókn vísindamanna við Johns Hopkins háskólann í Baltimore í Bandaríkjunum leiðir líkum að því að í fiskveiðum, fiskiðnaði og ekki síst hjá fiskneytendum í Bandaríkjunum fari nærri helmingur af því sjávarfangi sem hæft er til manneldis til spillis. Frá þessu er greint á vef SeafoodSource.

Rannsóknin byggist á gögnum sem safnað var á árunum 2009 til 2013. Í niðurstöðum hennar kemur fram að á milli 40 og 47% af fiskmeti hafi farið forgörðum á þessu tímabili.

Stærsti hluti þessarar sóunar, eða um 51 til 63% af heildinni, átti sér stað hjá neytendum bæði utan og innan heimilis. Brottkast á meðafla er um 16 til 32% af en restin tapaðist hjá dreifingaraðilum og smásölum.

Í skýrslu vísindamannanna kemur fram að um 208 þúsund tonnum af sjávarfangi hafi verið sóað á tímabilinu. Þetta magn hafi getað fullnægt ráðlagðri próteinneyslu yfir 10 milljóna manna á ári. Skýrsluhöfundar taka fram að aldrei sé hægt að gera ráð fyrir því að sjávarfang nýtist 100% til neyslu. Þeir vonist þó til að skýrslan opni augu manna fyrir þessari gríðarlegu sóun og að fólk leitist við í framtíðinni að nýta fiskinn betur en gert er.