miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nafn HB Granda verði Brim

18. júlí 2019 kl. 13:48

Stjórn HB Granda leggur til að nafni fyrirtækisins og vörumerki verði breytt í Brim og Brim Seafood. Jafnframt verður 31,1 milljón evra kaupsamningur á sölufélögum í Asíu lagður fyrir hluthafafund.

Stjórn HB Granda hf. samþykkti á fundi sínum í dag að leggja til við hluthafafund að nafni og vörumerki félagsins verði breytt úr  HB Granda í Brim og Brim Seafood.

„Nýtt vörumerki og nafn þjóna vel tilgangi félagsins sem er að markaðssetja og selja afurðir, sem félagið veiðir og vinnur, á verðmætum alþjóðamörkuðum,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

Breytingin er sögð eiga að undirstrika aukna áherslu félagsins á markaðs- og sölumál.

„Brim er einfalt og þjált nafn sem er ásamt vörumerkinu Brim Seafood þekkt á alþjóðamörkuðum fyrir sjávarafurðir.“

Nafni félagsins var síðast breytt fyrir 15 árum þegar útgerðarfélögin Haraldur Böðvarsson og Grandi sameinuðust. Grandi hafði áður fengið nafn sitt við sameiningu Ísbjarnarins og Bæjarútgerðar Reykjavíkur. 

Á sama fundi samþykkti stjórnin samninga um kaup á sölufélögum í Asíu af Útgerðarfélagi Reykjavíkur og að þeir yrði lagðir fyrir hluthafafund til samþykktar.

„Félagið gerði kauptilboð í félögin að fjárhæð 31,1 milljón evra  sl. föstudag og gekk eigandi þeirra, Útgerðarfélag Reykjavíkur hf., að tilboðinu eins og greint var frá í tilkynningu til kauphallar.“

Sölufélögin í Asíu keypti HB Grandi af Útgerðarfélagi Reykjavíkur, sem áður hét Brim hf. 

„Brim kom fyrst til sögunnar árið 2003 sem sjávarútvegsfélag Eimskipafélagsins og átti þá Harald Böðvarsson, Skagstrending og Útgerðarfélag Akureyrar.  Við sameiningu Útgerðarfélags Akureyrar, sem var þá komið í eigu Útgerðarfélagsins Tjalds, við ÚT ári síðar varð Brim nafnið á sameinaðu félagi. Á síðasta ári var nafni Brims breytt í Útgerðarfélag Reykjavíkur sem hefur nú afhent HB Granda nafnið Brim til eignar og afnota.“