sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Neitaði fíkniefnaprófi og var rekinn

22. maí 2013 kl. 12:20

Eiturlyf.

Tíundi hver sjómaður í Noregi neytti fíkniefna 2011. Hlutfallið nú komið í 6,8%

 

Norskur sjómaður var rekinn úr starfi eftir að hafa neitað að fara í fíkniefnapróf. Hann fór í mál við útgerðina og tapaði því. Þetta kemur fram í Fiskeribladet/Fiskaren.

Málið kom upp í febrúar í fyrra eftir að sprautunál hafði fundist um borð í fiskiskipi sem sjómaðurinn var á. Enginn kannaðist við að eiga sprautuna og eftir að í land var komið óskaði útgerðin að áhöfnin gengist undir fíkniefnapróf. Sjómaðurinn neitaði að afhenda lífsýni, hár af höfði sér, og var rekinn í kjölfarið.

Sjómaðurinn fór í mál við útgerðina og krafðist 1,2 milljóna norskra króna í bætur (26 milljóna ISK) vegna uppsagnarinnar. Hann tapaði málinu og situr uppi með háan lögfræðikostnað.

Í Fiskeribladet/Fiskaren kemur einnig fram að fyrirtækið Intoxico taki að sér að gera fíkniefnapróf fyrir útgerðir. Þegar þessi þjónusta hófst árið 2011 reyndist tæplega tíundi hver sjómaður hafa neytt ólöglegra fíkniefna samkvæmt prófunum. Þetta hlufall er nú komið niður í 6,8%. Tekið er fram að fíkniefnanotkun sjómanna sé ekki meiri en annarra starfsstétta í Noregi en hún sé litin alvarlegri augum vegna þess hve hættuleg störf sjómanna séu.