miðvikudagur, 22. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nemendur Fisktækniskólans hlutu veglegan styrk

11. mars 2019 kl. 13:00

Mynd/HAG

Tilkynnt hefur verið hverjir hljóta námsstyrki fyrir árið 2019 úr menntasjóði Íslensku sjávarútvegsverðlaunanna

Tilkynnt hefur verið hverjir hljóta námsstyrki fyrir árið 2019 úr menntasjóði Íslensku sjávarútvegsverðlaunanna, en sýningin er haldin í Smáranum á næsta ári. Námsstyrkirnir voru afhentir við hátíðlega athöfn í Íslenska sjávarklasanum á fimmtudag.

Í kjölfarið á Íslensku sjávarútvegssýningunni 2014 gerðu forsvarsmenn sýningarinnar sér grein fyrir nauðsyn þess að fjárfesta í framtíð sjávarútvegarins á Íslandi og settu á stofn menntasjóð til að veita námsstyrki til efnilegra nema innan geirans. Fyrsti námsstyrkurinn var veittur árið 2017.

Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar, veitti námsstyrkinni við hátíðlega athöfn í Sjávarklasanum. Handhafar námsstyrkjanna 2019 stunda báðir nám við Fisktækniskóla Íslands í Grindavík og hljóta hálfa milljón króna hvor til hvatningar til áframhaldandi náms, samtals eina milljón króna. Styrkina úr IceFIsh-menntasjóðnum hljóta þau Sólveig Dröfn Símonardóttir, sem leggur stund á nám í gæðastjórnun í sjávarútvegi, og Þorgeir Kristján Eyberg, sem leggur stund á nám í fiskeldi. Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sem stödd er erlendis, sendi sérstakar kveðjur til beggja handhafa styrkjanna og óskaði þeim velfarnaðar í námi í þágu sjávarútvegs á Íslandi.

Umsóknir um styrki voru metnar af dómnefnd sérfræðinga í sjávarútvegi, sem í sitja Ólafur Jón Arnbjörnsson, skólastjóri Fisktækniskóla íslands, Sigurjón Elíasson, fræðslu- og þróunarstjóri á alþjóðasviði Marel, Guðbergur Rúnarsson, verkfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, og Bjarni Þór Jónsson, fulltrúi Mercator Media/Íslensku sjávarútvegssýningarinnar á Íslandi.

Fisktækniskóli Íslands var stofnaður í Grindavík árið 2010 í því skyni að svara þörfum íslensks sjávarútvegs og landvinnslu með því að mennta hæft fólk til starfa í greininni. Skólinn býður upp á fjölbreytt nám í m.a fisktækni, fiskeldi, gæðastjórnun og Marel vinnslutækni.

Einnig er boðið upp á fisktækninám í samstarfi við Fjölbrautarskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ. Við upphaflegu námskeiðin hafa bæst ítarlegri námskostir og eru IceFish-námsstyrkirnir sérstaklega ætlaðir nemum í þeim fögum.

Sólveig Dröfn Símonardóttir: „IceFish-styrkurinn breytir öllu fyrir mig ef ég á að segja eins og er. Þegar ég skráði mig í námið í Fisktækniskóla Íslands hafði ég ekki hugmynd um hvernig ég ætlaði að borga fyrir það, en þetta var alltof gott tækifæri á áhugaverðu námi til að láta ekki slag standa. IceFish-styrkurinn núna er mér ennþá meiri hvatning í náminu, þar sem peningaáhyggjur eru þar með ekki lengur til staðar. Styrkurinn veitir mér tækifæri til að öðlast menntun sem ég hefði líklegast ekki getað aflað mér annars, og núna get ég haldið ótrauð áfram í þessu námi sem mér finnst alveg frábært.”

Þorgeir Kristján Eyberg: „Mér er efst í huga þakklæti til IceFish-menntasjóðsins því það er mikill heiður að hljóta þennan námsstyrk. Það var óvænt að fá hann og er mér mikil hvatning að halda áfram námi og standa sig vel. Ég þakka kærlega fyrir mig.”

Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri Íslensku sjávarútvegssýningarinnar: „Aðstandendur Íslensku sjávarútvegssýningarinnar fyrir hönd Mercator Media fagna því að geta stutt þessa efnilegu nemendur til frekari náms í íslenskum sjávarútvegi og hvetja þá til dáða með veglegu fjárframlagi. Sjávarútvegur er ein mikilvægasta atvinnugrein á Íslandi og með því að taka þátt í að efla hann með þessum hætti leggur Íslenska sjávarútvegssýningin sitt af mörkum til að gera hann enn betri og öflugri og auka þannig samkeppnishæfni hans á alþjóðlegum grundvelli. Það er sönn ánægja að leggja okkar lóð á vogaskálar áframhaldandi nýsköpunar og þróunar í útgerð- og landvinnslu á Ísland.”