laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Níu skipapör á tvíburatrolli fyrir austan land

10. júlí 2008 kl. 12:54

Íslenski uppsjávarveiðiflotinn er nú fyrir austan land á höttunum eftir síld en þó ekki síður makríl sem blandast hefur síldaraflanum og er utan kvóta. Blöndunin hefur verið mismunandi mikil en úr sumum togunum hefur komið nánast hreinn makrílafli.

Nær öll skipin eru á svokölluðum tvíburatrollsveiðum þar sem tvö skip draga eitt troll sameiginlega. Allt að níu slík skipapör hafa verið að veiðum þar eystra að undanförnu, að því er fram kemur í Fiskifréttum í dag.

Þetta er annað sumarið í röð sem makríllinn lætur sjá sig í ríkum mæli innan íslenskrar lögsögu og er hlýnandi sjávarhiti talinn valda því að fiskurinn sækir meira norður og vestur á bóginn en áður.

Vonir eru bundnar við að makríllinn geti orðið góð viðbót við annan afla á komandi árum, en í fyrra veiddu íslensk skip tæplega 37 þúsund tonn af þessum fiski að verðmæti 1,2 milljarðar króna.

Þá fór makrílaflinn að heita má allur í bræðslu en nú er hafi vinnsla og frysting á honum um borð í vinnsluskipum samhliða bræðsluveiðunum. Fundist hefur góður markaður í Austur-Evrópu fyrir hausskorinn og slógdreginn makríl frystan um borð í veiðiskipum.

 Nánar er fjallað um makrílveiðarnar í Fiskifréttum í dag.