miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Noregur: Makríll fyrir 60 milljarða

4. janúar 2011 kl. 13:31

Á árinu 2010 voru fluttar út makrílafurðir fyrir 3 milljarða norskra króna, sem jafngildir tæpum 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta er um 36% aukning frá árinu 2009. Aldrei fyrr hafa Norðmenn haft jafnmiklar útflutningstekjur af makrílafurðum. Þetta kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna.

Útflutningur á afurðum úr uppsjávarfiski árið 2010 nam um 7,3 milljörðum NOK eða tæpum 145 milljörðum ISK og magnið var 1,1 milljón tonn.  Þennan góða árangur þakka Norðmenn því að kvótar voru auknir í öllum þremur tegundum uppsjávarfisks, síld, makríl og loðnu, ásamt mikilli eftirspurn á mörkuðum. Þá skipti það miklu að Japanir keyptu mikið af makríl frá Noregi og Nígería keypti mikið magn af síld á góðu verði.

Heill frystur makríll skilaði um 2,8 milljörðu NOK í útflutningstekjur, sem er 38% aukning frá árinu 2009. Japan er stærsti markaðurinn en þangað fóru 75 þúsund tonn af makríl. Kína kemur þar á eftir með 51 þúsund tonn. Þar er makríllinn reyndar flakaður og fluttur til Japans. Meðalverð fyrir frystan makríl var 10,62 NOK á kíló (tæpar 210 ISK) sem er 1,6% lægra verð en árið 2009.

Rússland er sem fyrr stærsti markaðurinn fyrir síldarafurðir. Þangað var seld síld fyrir 862 milljónir NOK. Nígería kemur þar á eftir með 509 milljónir NOK, sem er 21% aukning frá fyrra ári.

Á árinu 2010 voru flutt út 130 þúsund tonn af frystri loðnu sem er um 2 þúsund tonna samdráttur frá árinu 2009. Rússland er stærsti markaðurinn fyrir loðnuafurðir en þangað fóru 44 þúsund tonn. Japansmarkaðurinn tók við 14 þúsund tonnum.