þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norskar sjávarafurðir: 800 milljónir í markaðsátak innanlands

7. október 2010 kl. 15:03

Norska fiskútflutningsráðið (EFF) sinnir ekki eingöngu markaðssetningu norskra sjávarafurða erlendis heldur einnig á heimamarkaði. Á næsta ári verður aukin áhersla lögð á innanlandsmarkaðinn. Gert er ráð fyrir að verja þar 50% meira til markaðsmála en í ár, eða fara úr 27,5 milljónum NOK í 42 milljónir NOK (800 milljónir ISK).

Þessar upplýsingar koma fram á vef samtaka norskra útvegsmanna. Haft er eftir talsmönnum EFF að í ár hafi aðaláherslan verið lögð á að kynna norskan lax og laxaafurðir. Með auknum fjármunum á að beina sjónum norsks almennings einnig að öðrum fisktegundum, svo sem þorski, ufsa, síld og lúðu.

Á síðasta ári voru fluttar út norskar sjávarafurðir fyrir um 45 milljarða NOK (860 milljarða ISK) en heimamarkaðurinn er líka mikilvægur. Hann kemur næst á eftir Rússlandsmarkaði og markaðnum í Frakklandi að mikilvægi fyrir norskar sjávarafurðir. Því er talið réttlætanlegt að kosta miklu til að sinna þeim markaði og stækka hann.

Norska fiskútflutningsráðið, Eksportutvalget for fisk (EFF), gegnir afar þýðingarmiklu hlutverki við markaðssetningu á norskum sjávarafurðum. EFF er hlutafélag í eigu norska ríkisins og heyrir það undir sjávarútvegsráðuneytið norska. Starfsemin er fjármögnuð með gjaldi sem lagt er á sávarafurðir.