sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Norðursjór: Hlýnun sjávar mesta ógnunin við þorskinn

14. september 2009 kl. 12:01

Hækkandi sjávarhiti kann að reynast meiri ógn við þorskstofninn í Norðursjó en ofveiði, segir í nýrri breskri vísindaskýrslu. Meðalhiti í Norðursjó hefur hækkað um eina gráðu síðan árið 1970 og slík þróun hefur komið róti á sum vistkerfi.

Átutegundir sem þorsklirfur lifa á hafa leitað í kaldari sjó. Hnignun þorskstofnanna hefur orðið til þess að krabbadýr og marglyttur hafa fjölgað sér gríðarlega. Þegar ránfiskunum ofarlega í fæðukeðjunni fækkar hafa krabbadýr lagst með fullum þunga á ungviði flatfiska eins og skarkola og sólkola.

Vísindamennirnir segja að kvótaniðurskurður eða bann við veiðum muni ekki nægja til þess að bjarga þorskinum í Norðursjó, þótt kvótarnir séu mikilvægir til þess að vernda sem lengst þann þorsk sem enn sé til staðar.

Skýrsla þessi birtist í ritinu the Proceedings of the Royal Society Biological Science Journal.

Í frétt á sjávarútvegsvefnum FishUpdate.com segir að fiskimenn í Norðursjó véfengi sumar af niðurstöðum sumar af niðurstöðum skýrslunnar. Áhafnir báta frá Grimsby hafi til dæmis haldið því fram að þorskstofninn sé í prýðilegu ástandi um þessar mundir. Nóg sé af þorskinum. Hins vegar viðurkenni sjómenn að á síðustu árum hafi borið meira á hlýsjávartegundum í Norðursjónum.