þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný Cleopatra afhent til Skotlands

30. júní 2011 kl. 12:33

Trefjabáturinn sem seldur hefur verið til Skotlands

Báturinn heitir Dalwhinnie eftir þekkri viskítegund.

Bátasmiðjan Trefjar í Hafnarfirði afgreiddi í síðustu viku nýjan Cleopatra bát til Stonehaven á austurströnd Skotlands. Nýi báturinn hefur hlotið nafnið Dalwhinnie en það er nafn á þekktri viskítegund, enda er eigandinn og skipstjórinn, Ian Mathieson, sagður vera viskíunnandi hinn mesti.  

Báturinn er 19 brúttótonn af gerðinni Cleopatra 42, sem er ný útgáfa af Cleopatra 38 bátnum.  Nýi báturinn mun leysa af hólmi eldri og minni Cleopatra bát sem eigendurnir fengu afhentan frá Trefjum árið 2002.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Cummins QSM 11 610hp tengd ZF gír.

Báturinn er útbúinn 17kW rafstöð af gerðinni Westerbeke.  Siglingatæki koma frá Furuno.  Hann einnig útbúin með vökvadrifinni hliðarskrúfu sem tengd er sjálfstýringu bátsins. 

Báturinn er útbúinn til gildruveiða á humri og nokkrum krabbategundum.  Reiknað er með að báturinn muni draga 1000 gildrur á dag.

Í bátnum eru tvær fiskilestar.  Önnur er sjótankur sem hægt er að skipta í þrennt til að halda tegundum aðskildum.  Hin lestin er útbúinn sjálfvirku sjóúðunarkerfi til að halda humri lifandi um borð.  Rými er fyrir 16stk 380lítra kör í lest.  Í vistarverum er svefnpláss fyrir þrjá til fjóra.