föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný-Fiskur auglýstur til sölu

26. september 2016 kl. 12:22

Ný-Fiskur í Sandgerði.

Tekjur fyrirtækisins á þessu ári eru áætlaðar þrír milljarðar króna.

Stjórn Icelandic Group hefur ákveðið að hefja söluferli á dótturfélagi félagsins, Ný-Fiskur, í Sandgerði. Fyrirhuguð sala er liður í stefnu Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu, að einfalda rekstur félagsins.

Ný-Fiskur er eitt fjögurra dótturfélaga Icelandic Group en fyrr í þessum mánuði var tilkynnt um undirritun samnings vegna sölu á Icelandic Ibérica á Spáni til framleiðenda á Íslandi. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur verið falið að sjá um söluferli alls hlutafjár í Ný-Fisk.

Ný-Fiskur sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum sjávarafurðum. Félagið nýtir um 6.000 tonn af hráefni árlega og eru tekjur fyrir árið 2016 áætlaðar um 3.000 m.kr. Stór hluti afurða er fluttur með flugi til viðskiptavina í Belgíu og annarra Evrópulanda. Ný-Fiskur rekur vel útbúna vinnslu að Hafnargötu 1 í Sandgerði.

Félagið gerir út línubátinn Von GK-113 í gegnum dótturfélag sitt, Útgerðarfélag Sandgerðis, sem er með um 800 þorskígildistonn af aflaheimildum í krókaaflamarkskerfinu. Hjá félaginu starfa um 70 manns og framkvæmdastjóri þess er Þorsteinn Magnússon.

Sjá nánar á vef Íslandsbanka.