fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný veiðarfæri kynnt í tilraunatanknum í Hirtshals

9. desember 2013 kl. 07:59

HB Grandamenn í tilraunatankinum í Hirtshals.

Rúmlega 70 skipstjórnarmenn og fulltrúar útgerða í ferð á vegum Hampiðjunnar.

Í síðustu viku stóð Hampiðjan fyrir hinni árlegu kynningu sinni á veiðarfærum fyrirtækisins í tilraunatanknum í Nordsjöcenter í Hirtshals í Danmörku. Fulltrúar íslenskra útgerða voru að vanda fjölmennir og auk þeirra voru gestir frá Færeyjum, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Spáni, Hollandi, Bandaríkjunum, Rússlandi og Suður-Ameríkuríkjum.

Á vef Hampiðjunnar kemur fram að meðal nýjunga megi nefna nýtt ,,Gloríu 1760m Super Wide“ breiðtroll sem sérstaklega er ætlað til veiða á makríl. Þessi nýja útfærsla er búin að vera á teikniborðinu í nokkurn tíma og verður í hlutföllum einn á hæð á móti fjórum á breidd. Í dag eru þessi troll í hlutföllunum einn á móti þremur. Núverandi troll ná 45 metra hæð og 160 metra milli vængenda en nýja útfærslan verður með 215 m milli vængenda en svipaða hæð og fyrr og með því er vonast til að hægt sé að draga verulega úr aukaafla, s.s. síld, með makrílnum.

Sömuleiðis var sýnd loðnunót í tankinum sem er afar sjaldgæft. Umrædd nót vakti mikla athygli í fyrra enda hefur hún reynst afar vel og bíða margir spenntir eftir að sjá virkni hennar í tanknum. Einnig voru kynntar nýjungar í trollpokum og botntrollum og fleiru.

HB Grandi var meðal þeirra íslensku útgerða sem sendi menn í ferðina. Á vef HB Granda er haft eftir Steindóri Sverrissyni að meðal nýjunga sem vakið hafi athygli í ferðinni hafi verið tollhlerarnir frá Thyborön sem farið væri að nota á botntrollsveiðum með góðum árangri.

„Mér skilst reyndar að skip, sem gert er út frá Argentínu og veiðir með átta mismunandi trollum, allt frá botni og upp að yfirborði, noti sömu toghlerana við veiðarnar. Þá eru til flottroll sem hægt er að veiða með allt niður undir botn og menn eru sammála um að þróunin í gerð þessara veiðarfæra sé vel þess virði að fylgst sé náið með henni. Af öðru áhugaverðu má svo nefna svokallaðan fjögurra byrða trollpoka. Það eru bundnar miklar vonir við að hann létti þrýstingi af fiski og stuðli þannig að bættri meðferð aflans og auknum gæðum afurðanna,“ segir Steindór.