þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ný vinnslulína Russian Fishery frá Marel

Guðjón Guðmundsson
13. júní 2019 kl. 07:00

Nýja skurðarlínan frá Marel.

Russian Fishery, einn stærsti framleiðandi bolfisks í Rússlandi, í samstarfi við Agama Group, lýkur uppsetningu á nýrri landvinnslu í Murmansk í september sem búin verður meðal annars vatnskurðarvélum frá Marel.

Russian Fishery, einn stærsti framleiðandi bolfisks í Rússlandi, í samstarfi við Agama Group, lýkur uppsetningu á nýrri landvinnslu í Murmansk í september sem búin verður meðal annars vatnskurðarvélum frá Marel.

Fyrirtækið mun vinna þorsk og aðrar tegundir í vinnslunni. Búnaðurinn í vinnslunni greinir byggingu fisksins áður en hann sker hann í hágæðaflök en auk þess verður framleiddur marningur í vinnslunni. Framleiðslugetan verður 50 tonn af tilbúnum afurðum úr þorski og ýsu á dag. Verksmiðjan mun skapa 200 ný störf. Heildarfjárfestingin er um 700 milljónir rúblna, rúmir 1,3 milljarðar króna.

Landvinnslan er byggð á grunni svokallaðs fjárfestingakvóta rússneskra stjórnvalda sem veitir fyrirtækjum viðbótarkvóta sem endurnýja skipaflota sinn og/eða vinnslur. Í samræmi við þetta mun Russian Fishery fá viðbótarkvóta upp á 1.800 tonn af þorski og 500 tonn af ýsu í fyrjun árs 2020.

Önnur vinnsla upp á 25 tonn á dag

„Verksmiðjan verður orðin starfhæf á þessu ári og hágæðavörur frá okkur farnar að sjást í hillum verslana í Murmansk og verslunarkeðjum vítt og breitt um landið,“ sagði Fedor Kirsanov, forstjóri Russian Fishery í samtali við IntraFish.

„Þróun fullkominnar vinnslu í Rússlandi hefur í för með sér stóraukið gæðaeftirlit í öllu framleiðsluferlinu, ný störf og auknar tekjur, meðal annars vegna útflutnings á unnum vörum í stað útflutnings á hráefni.“

Auk þessarar verksmiðju ráðgerir Russian Fishery að reisa aðra vinnslu fyrir þorsk og ýsu í Murmansk með framleiðslugetu upp á hið minnsta 25 tonn af tilbúnum afurðum á dag. Russian Fishery er á meðal þriggja stærstu framleiðenda bolfisks í Rússlandi. Stefnumörkun fyrirtækisins lýtur að því að auka framleiðslu á unnum sjávarafurðum meðal annars með endurnýjun skipaflotans, smíða nýrra, hátæknivæddra ofurtogara og nýrra landvinnslna.