laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýr snurvoðar- og netabátur til Grímseyjar

19. janúar 2018 kl. 12:07

Hafborg EA í skipasmíðastöð í Danmörku. MYND/AÐSEND MYND

Stefnt að því að halda til veiða í næsta mánuði

Hafborg EA, nýjum neta- og snurvoðarbát samnefnds útgerðarfyrirtækisis í Grímsey, var gefið nafn í skipasmíðastöðinni Hvide Sande í Danmörku 14. janúar síðastliðinn. Dagurinn var vel valinn af Guðlaugi Óla Þorlákssyni, útgerðarmanni og skipstjóra, því þennan dag fyrir allmörgum árum gifti hann sig, eignaðit tvíbura og dóttur hans var skírð.

Skrokkur Hafborgar var smíðaður í Póllandi en síðan dreginn yfir til Danmerkur þar sem allur frágangur fór fram. Skipið er tæpir 26 m á lengd og tekur 50 tonn af kröpuðum fiski í lest. Það leysir af hólmi eldri Hafborgu sem var rúmir 18 m á lengd og tók 15 tonn í lest og Kolbeinsey EA sem var í krókaaflamarkskerfinu. Um 900 þorskígildistonna kvóti er á nýju Hafborgu.

Smíðin er talsverð tíðindi fyrir Grímsey þar sem nýsmíði hefur ekki sést svo árum skiptir. Guðlaugur skipstjóri, var úti í Danmörku þegar haft var samband við hann. Hann segir að skipið hafi verið í smíðum í um eitt ár og flestar verkáætlanir staðist.

Allur frágangur til fyrirmyndar

„Við stefnum að því að sigla heim á leið á laugardaginn ef veður leyfir. Við prófuðum bátinn fyrir skemmstu en á föstudaginn ætlum við út og kasta snurðvoðartógunum og hífa þau inn aftur til þess að prófa spilin.“

Hann segir fráganginn allan til fyrirmyndar á bátnum. Sex klefar eru í bátnum, þar af tveir tveggja manna. Vistarverurnar eru rúmgóðar og með öllum aðbúnaði  auk þess sem í honum er góð stakkageymsla og gott millidekk sem er vel útbúið fyrir aðgerð og frágang á fiski. Krapakerfi og kæling er í lestinni og hún er öll einangruð í hólf og gólf.

Meðalverð helmingi hærra í Danmörku

„Við eigum að geta skilað ennþá betra hráefni sem ætti að auka verðmæti aflans. En mér finnst alger hörmung hve lítil aðgreining er gerð á góðu hráefni og löku hjá fiskmörkuðunum. Þótt allir séu að vanda sig sem mest þeir mega fá þeir ekkert meira fyrir aflann. Slóðarnir fá alveg jafn mikið fyrir fiskinn og þeir sem eru að vanda sig. Það er eitthvað að hjá fiskmörkuðunum á Íslandi. Þeir ríkir fákeppni og þetta er hálfgerð mafía. Mér finnst alla vega hart ef meðalverð á mörkuðum hér í Danmörku er 150-200 krónum hærra en meðalverð á Íslandi. Meðalverð á flatfiski í Danmörku er 470-500 krónur en það er helmingi lægra á Íslandi,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur segir stefnt að því að halda til veiða 10. febrúar. Hingað til hafi mest af aflanum farið á markað en einnig hafa verið föst viðskipti með netafiskinn. Svipað fyrirkomulag verði á nýja bátnum. Fimm verða í áhöfn og gekk ágætlega að fá mannskap á bátinn.

„Við vorum að taka það saman 18-19% af brúttó innkomu fara orðið í markaðstengd gjöld, hafnargjöld, aflagjöld og veiðileyfagjöld. Þetta er næstum fimmtungur af innkomunni. Við erum að borga yfir 20 krónur á kílóið í þorski bara í veiðigjöld og líklega nálægt 36 krónur með öðrum gjöldum.“