laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Nýrri skip - færri slys

Guðjón Guðmundsson
27. janúar 2018 kl. 15:00

Snæfríður Einarsdóttir, forstöðumaður öryggismála hjá HB Granda. MYND/GUGU

Snæfríður Einarsdóttir öryggisstjóri hjá HB Granda

Slysum hefur fækkað, jafnt á sjó sem á landi, hjá HB Granda á síðasta ári. Þá er fyrirsjáanlegt að mjög muni draga úr slysum um borð í íslenska fiskiskipaflotanum samhliða endurnýjun hans. Ekkert alvarlegt slys hefur orðið í Venus NS frá því að það fór í notkun árið 2015.  Þetta kemur fram í máli J. Snæfríðar Einarsdóttur, öryggisstjóra HB Granda.

Snæfríður hóf störf sem forstöðumaður öryggismála hjá HB Granda fyrir tveimur árum en þá var starfið nýtt hjá félaginu. Hún er borin og barnfædd á Vopnafirði og hefur reynslu af sjómennsku. Snæfríður réri fyrst til fiskjar með föðurbróður sínum frá Bakkafirði 15 ára gömul og stundaði sjóinn samhliða námi í vélstjórn og vélvirkjun en samninginn tók hún hjá Samherja. Snæfríður er því með góða innsýn í líf og störf sjómanna og umhverfið sem þeir starfa í.  Skólagöngunni lauk þó ekki í þar því Snæfríður er jafnframt með BA í sálfræði og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun.

Hópur öryggisstjóra
Þegar Snæfríður hóf störf sem öryggisstjóri voru einungis Samherji og Síldarvinnslan á Neskaupstað með slíkar stöður. Í dag eru öryggisstjórar hjá flestu stóru sjávarútvegsfyrirtækjunum, í fullu starfi eða meðfram öðrum störfum. Þessi fyrirtæki eru auk HB Granda, Brim, Vísir, FISK Seafood, Samherji, Síldarvinnslan, Þorbjörninn, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, Ísfélagið og Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum.

„Það er mikill metnaður innan HB Granda að gera vel í öryggismálum. Innan félagsins eru margar ólíkar starfsstöðvar og mikil áhersla lögð á að hafa góða yfirsýn. Hér innandyra eru margir sem hafa áhuga á öryggismálum og hafa sinnt þeim vel. Við höfum getað nýtt það sem vel hefur verið gert á einni starfsstöð yfir á aðrar og þannig samræmt nálgunina í þessum málum,“ segir Snæfríður.

Öryggisfundir og æfingar
Snæfríður heyrir beint undir forstjóra. Í öllum skipum og starfsstöðvum HB Granda eru öryggisnefndir og er Snæfríður fulltrúi yfirstjórnar í þeim nefndum. Nefndirnar innan landvinnslunnar eru fjórar en auk þess hefur hvert skip sína nefnd. Haldnir eru að lágmarki 4 fundir á ári og fleiri ef þurfa þykir í landvinnslu. Á skipunum er miðað við að halda 12 æfingar á ári.

Æfingarnar snúast að miklu leyti um að æfa viðbrögð samkvæmt neyðaráætlun (skipið yfirgefið, þyrlubjörgun, strand, eldur um borð og maður fyrir borð).  Í uppsjávarskipunum, Venus NS og Víkingi AK, er fjarlækningabúnaður og hefur notkun hans einnig verið æfð. Með honum getur áhöfnin sett sig í beint samband við lækni en ekki hefur enn reynt á notkun búnaðarins við raunverulegar aðstæður. Með honum má meðal annars mæla blóðþrýsting og súrefnismettun og berast upplýsingarnar beint á skjá hjá lækninum sem gefur til baka leiðbeiningar, t.a.m. ef gera þarf að sárum.

Slysalaus ár á Venus NS
Slysatíðni í flota HB Granda lækkaði á milli áranna 2016 og 2017 en Snæfríður segir að enn megi gera betur. Til dæmis hefur ekkert alvarlegt slys orðið um borð í Venusi NS síðan skipið var tekið í notkun 2015.

„Við erum að endurnýja flotann eins og kunnugt er. Engey RE er komin í drift, Akurey AK er áætluð á veiðar í janúar og Viðey RE bætist svo í hópinn innan tíðar. Með nýjum skipum gerum við ráð fyrir að það dragi en frekar úr slysum. Mörg slysa til sjós verða í lestum skipanna, Í nýju ísfisktogurunum eru sjálfvirkar lestar sem eru mannlausar sem eykur til muna öryggi áhafnarinnar. Við erum að taka út hættulegustu störfin um borð og í þessu felst algjör bylting,“ segir Snæfríður.

Snæfríður tekur undir þau orð Hilmars Snorrasonar, skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna, að innan fárra ára heyri alvarleg slys sögunni til um um borð í skipum. Þetta sé gerlegt en að sama skapi þurfi að vera vakandi fyrir nýjum hættum samfara nýrri tækni. Einnig sé það áskorun fyrir starfsfólk sem starfað hefur til sjós við erfiðar aðstæður og sér hvergi hlíft að tileinka sér nýjar vinnuaðferðir.

Áhættumat er grunnur alls vinnuverndarstarfs bæði á sjó og landi. Lögð er áhersla á að áhættumöt séu til staðar, að sem flestir komi að áhættugreiningunni og að stjórnendur fylgi útbótum eftir.

„Áhættumatið er lifandi skjal sem áhafnirnar vinna sjálfar unnið enda þekkja þær best aðstæður og umhverfið.“

Einnig hefur slysatíðni í landvinnslunni lækkað en Snæfríður segir að sömuleiðis megi gera betur þar. Markmiðið sé að gera HB Granda að öruggum vinnustað og það sé raunhæft markmið. Hún segir að mikið sé í húfi, jafnt fyrir starfsfólkið sjálft og félagið. Sárt sé að vita til þess að starfsfólk búi við skert lífsgæði eftir að hafa orðið fyrir slysi. Það er staðreynd sem við sættum okkur ekki við og höfum einsett okkur að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir slys.