mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ófriðun sels takmörkuð

Guðsteinn Bjarnason
13. maí 2019 kl. 09:05

Landselur á skerjum. Hríðfækkað hefur í stofninum síðustu áratugi. MYND/ÞB

Hingað til hefur selur verið réttdræpur nánast, eða „ófriðaður“ eins og það er orðað í lögum. Nú á að breyta því enda landselurinn í bráðri útrýmingarhættu.

Alþingi hefur veitt ráðherra heimild til að banna selveiðar.

Enn eru reyndar í gildi lög um útrýmingu sels í Húnaósi. Samkvæmt þessum lögum, sem sett voru árið 1937, skal Veiðifélag Vatnsdalsár hafa einkarétt til að útrýma sel úr Húnaósi, og á stjórn félagsins að ráða mann eða menn til starfans.

Þá er í lögum þessum kveðið á um að Presturinn í Steinnesi fái „bætur fyrir missi heimatekna vegna selveiði í Húnaósi. Ríkissjóður greiðir þeim bæturnar eins og þær eru metnar.“

Nú vill svo til að prestsetrið í Steinnesi var flutt til Blönduóss árið 1970. Þar er nú ræktunarbú hrossa og raunar háttar svo til, að því er fram kemur á heimasíðu ræktunarbússins, að meðal hesta þar er einn sem heitir Prestur frá Hæli, fæddur árið 2006. Vart fengi sá prestur þó neinar bætur fyrir missi heimatekna vegna selveiði í ósnum.

Fá ákvæði hefur verið að finna í íslenskum lögum um selveiði, ef undan eru skilin þessi lög frá 1937 og síðan Jónsbók frá 1281. Þar segir meðal annars: „Sá maðr, er land á, hann á þara allan ok fugla alla, sela alla ok rostunga, ok svá ef maðr drepr sel.“

Ennfremur eru í gildi lög frá 1925 um „selaskot á Breiðafirði og uppidráp“ þar sem öðrum en landeigendum er bannað að „rota sel eða drepa uppi.“

Nú í vikunni samþykkti Alþingi í fyrsta sinn lög sem heimila almenna takmörkun selveiða. Í greinargerð með frumvarpi þess efnis segir að tilefni þess sé meðal annars að „stofn landsels sé nú í sögulegu lágmarki.“

Landselnum hefur hríðfækkað
Á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands er landsselsstofninn nú metinn í bráðri hættu.

„Fækkað hefur um 77% í stofninum síðan fyrsta stofnmatið fór fram 1980 og samkvæmt talningu sumarið 2016 hafði stofninn minnkað um tugi prósenta (þriðjung) frá 2011,“ segir í greinargerðinni með frumvarpinu.

Megintexti hinna samþykktu laga er stuttur: „Ráðherra getur með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.“

Alþingi fór ekki þá leið að setja heildarlög um selveiðar, enda þótt Umhverfisstofnun segist í umsögn sinni um frumvarpið telja „lagaumhverfi sela og selveiða þarfnist heildarendurskoðunar og að slík endurskoðun ætti að fara fram samhliða endurskoðun löggjafar um vemd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem nú þegar er í gangi hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.“

Þess í stað er fyrrgreindu ákvæði skotið inn í lög um lax- og silungsveiðar, þar sem það kemur nú aftan við 11. grein þar sem segir að sé selur „í veiðivatni, ósi þess eða ósasvæði er þeim er veiðirétt eiga samkvæmt lögum þessum heimilt að styggja hann og skjóta.“

Yfirskrift þessarar 11. greinar laga um lax- og silungsveiðar er raunar „Ófriðun sels“.

Einfaldara en sérlög
Meirihluti atvinnuveganefndar tekur í áliti sínu fyrir 2. umræðu á þingi undir það að fara þurfi í heildarendurskoðun löggjafar varðandi seli. „Sú staða sem sé uppi kalli hins vegar á að brugðist sé skjótt við til þess að varna því að staða selastofna við landið versni enn frekar.“

Afar bág staða landsselsstofnsins við Ísland veldur meðal annars því að MSC-vottun grásleppuveiða hér við land verði endurheimt fyrr en úr hefur verið bætt.

Í umræðum á þingi komu fram raddir um að ef til vill væri skynsamlegra að hafa reglur um vernd sela annað hvort í sérstakri löggjöf þar um eða innan lagabálks um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, sem tóku gildi árið 1994 en ná ekki til sela.

Ráðherra svaraði því til að þetta fyrirkomulag sé einfaldara. Frumvarpið varð að lögum á þriðjudag, samþykkt með 54 samhljóða atkvæðum.

Þessi frétt birtist í Fiskifréttum fimmtudaginn 9. maí.