mánudagur, 30. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Opið fyrir ferskt á smásölumarkaðinn

Guðjón Guðmundsson
25. apríl 2020 kl. 09:00

Alda Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars.

Um helmings samdráttur í sölu Einhamars.

Einhamar Seafood í Grindavík er eitt þeirra sjávarútvegsfyrirtækja sem eingöngu vinnur ferskan fisk fyrir Bandaríkjamarkað og Evrópu. Frá því Covid-19 faraldurinn blossaði upp hefur umfangið í útflutningi á þessa markaði dregist saman um nær helming. Alda Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars, segir að veitingastaðir og mötuneyti hafi horfið úr hópi viðskiptavina.

„Þetta gengur bara þokkalega. Við tökum einn dag fyrir í einu og lítið annað hægt að gera þessa dagana. Markaðurinn er dálítið brokkgengur. Það hafa verið miklar sveiflur í eftirspurninni og svo erum við bundin af flutningum með flugi. Það koma afskaplega rólegir dagar inn á milli og lítið hægt að segja til um hvernig morgundagurinn verður,“ segir Alda.

7 í hlutaráðningum

Að jafnaði fer nálægt um 60% afurðanna vestur um haf og annað fer á Bretland. Veitingastaðir og mötuneyti eru ekki lengur meðal viðskiptavina heldur eingöngu smásöluverslunin. Fyrirtækið er að horfa fram á mikinn tekjusamdrátt.

„Þegar þessi staða kom fyrst upp vissum við í raun ekkert hvað væri framundan, ekki síst þegar tilkynnt var að lokað hefði verið fyrir flug til Bandaríkjanna. En það er áfram flogið með vörur og við erum að nýta þær ferðir en þetta er fjarri því sem við eigum að venjast.“

Um 70 manns starfa hjá Einhamri sem gerir út línubátana Gísla Súrsson GK og  Auði Vésteinsdóttur GK. Um 40 manns vinna við fiskvinnsluna og hefur ekki þurft að koma til uppsagna en gerðir hlutaráðningarsamningar við sjö starfsmenn.

Stýrðar veiðar

„Meðan við getum gert eins gott úr stöðunni og hægt er þá gerum við það að sjálfsögðu. Við erum ekki með aðstöðu til þess að fara út í frystingu enda er það ekki okkar svið. Við erum með eitt lítið frystitæki í húsinu. Við fengum auðvitað nettan hroll í fyrstu þegar við vissum ekkert hvað yrði um markað fyrir ferskan fisk. Það var líka óttinn við hið óþekkta. Það voru allir að keyra í einhverja átt án þess að vita hver áfangastaðurinn yrði.  Það er meiri ró yfir þessu núna þótt staðan sé hvorki betri né verri en hún var strax í upphafi. En á meðan það er flogið þá sleppur þetta til þótt það séu færri flug en venjulega og á færri staði. Við höfum séð hvernig þetta er að þróast og ef staðan helst óbreytt erum við góð í bili,“ segir Alda.

Nú fljúga fjórar flugvélar á viku til Boston en óbreytt staða er gagnvart vöruflutningaflugi til Bretlands. Mjög misjafnt er eftir vikum hve mikið er að fara af afurðum frá Einhamri á þessa markaði og ræðst það algjörlega af eftirspurninni. Alda segir samt óhætt að segja að um helmingi minna af afurðum sé að fara frá Einhamri en alla jafna. Veiðunum hefur alltaf verið stýrt eftir markaðsaðstæðum hverju sinni hjá Einhamri eins og gert er hjá flestum öðrum fyrirtækjum.

Annar bátanna var settur í slipp og minna hefur verið keypt af fiski á markaði. Páskar eru nýafstaðnir og nú stendur yfir hrygningarstopp þannig að sjálfhætt er í veiðum um einhverja daga.