sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskaparadís við strönd Finnmerkur

20. ágúst 2008 kl. 08:43

Það er víðar en á Íslandsmiðum sem sjómenn lenda í mokveiði á þorski en þegar fiskifræðingar koma síðar á staðinn hefur veiðin oft dottið niður. Snurvoðarbátar við strönd Finnmerkur í Noregi hafa veitt óvenjumikið af þorski að undanförnu.

„Það er krökkt af þorski meðfram ströndinni. Hann eltir síldina og ástandið á honum er mjög gott. Hér er sannkölluð þorskaparadís,“ er haft eftir talsmanni útvegsmanna á svæðinu í norska blaðinu Fiskaren.

Blaðið ræddi einnig við fiskifræðinga hjá norsku hafrannsóknastofnuninni í Björgvin sem taldi að fyrirhugaður haustleiðangur ætti að gefa góða mynd af ástandi þorskstofnsins við norðurströndina, auk þess sem þeir hefðu góðan samanburð á afla báta í strandveiðiflotanum á milli ára til að styðjast við.