sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskur laðaður að gildrum með lykt af beitu

1. júlí 2009 kl. 16:57

Útibú Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði vinnur nú að verkefni sem nefnist ,,Aðlöðun og gildrun þorsks”. Verkefnið felst í því að kanna hvernig þorskur laðast að gildrum og hvernig hægt er að lokka hann í þær með lykt af beitu.

Fyrstu skref verkefnisins voru stigin sumarið og haustið 2008 þegar framkvæmdar voru myndatökur neðansjávar af s.k. leiðigildrum sem prófaðar hafa verið hérlendis með misgóðum árangri. Einnig fóru fram prófanir á áhrifum nokkurra gerða lyktarefna á þorsk í tilraunakví í Álftafirði við Ísafjarðadjúp. Tilraunaaðstaða og uppsetning búnaðar var samnýtt með öðru verkefni stofnunarinnar; Atferlisstjórnun á þorski með hljóðduflum.

Skemmst er fá því að segja að niðurstöður þeirra prófana leiddu til þess að verið er nú á þessu ári að stíga næstu skref í verkefninu. Þau felast í hönnun, smíði og prófunum á búnaði sem gerir mönnum kleyft að stýra skömmtun á lyktarefnum við botn og jafnframt að fylgjast með í myndavélum hvort og hvernig fiskur bregst við.

Skömmtunar- og myndavélabúnaður við botn er tengdur við bauju á yfirborði sem hýsir tölvubúnað til stýringar á skömmtun, upptöku og stjórnun myndavéla ásamt þráðlausum samskiptum í land. Einnig er í baujunni búnaður til framleiðslu á rafmagni, bæði sólarsellur og efnarafall.

Smíði og samsetning þessa búnaðar er nú á lokastigi og verður prófaður nú á haustmánuðum í Ísafjarðardjúpi. Verði niðurstöður prófana jákvæðar mun verða smíðuð gildra utan um búnaðinn og reynt að fanga þann fisk sem rennur á lyktina.

Verkefnið hlaut styrk til þriggja ára frá AVS rannsóknasjóði og er samvinnuverkefni útibússins, Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., LÍÚ og Háskólans á Akureyri. Markmið verkefnissins er að leita hagkvæmra leiða til að fanga þorsk í gildrur.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar,HÉR