föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Þorskurinn alls staðar til ,,vandræða"

22. september 2009 kl. 12:00

,,Það líður varla sá dagur að maður heyri ekki lýsingar á því hversu gríðarlega mikið sé af þorski víða við landið þannig að til vandræða horfi vegna þess hve lítið má veiða af honum. Ég hef ekki í annan tíma heyrt svona víða að af landinu fréttir af því hve fiskiríið sé gott og fiskurinn vel haldinn,” sagði Árni Bjarnason forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ)  í samtali við Fiskifréttir.

,,Í morgun heyrði ég af línubáti sem var að koma inn af Látragrunni. Þar var myljandi fiskur og mjög fallegur. Í gær talaði ég við togaramann sem sagði að þeir hefðu verið átta tíma að ná í þau 30 tonn sem þeir máttu veiða í túrnum. Svona eru lýsingarnar frá degi til dags. Til samanburðar rifjar maður svo upp ástandið hér í gamla daga, til dæmis á vorin þegar maður fékk ekki í soðið af þorski þótt farið væri hringinn í kringum landið,” segir Árni.

Sóknin hefur hrunið

,,Ég held að menn hafi gleymt að horfa til þess hversu mikið dregið hefur úr sókninni í þorskinn miðað við það sem áður var. Hún hefur gjörsamlega hrunið og er fáránlega lítil. Það er nánast engin bein sókn í þorsk í dag en í gamla daga voru hundruð skipa á miðunum að eltast við þetta kvikindi. Maður hlýtur að spyrja sig hvort Hafrannsóknastofnun sé með réttar forsendur þegar hún metur ástand þorskstofnsins. Óneitanlega beinir maður sjónum til Barentshafsins þar sem vöxtur þorskstofnsins hefur ekki verið meiri í annan tíma þrátt fyrir umframveiði í mörg ár. Það er afgerandi munur á því hvernig staðið er að málum þar og hér hvað þorskinn varðar,” sagði Árni Bjarnason.

FFSÍ og Félags skipstjórnarmanna sendi frá sér ályktun í morgun þar sem skorað er á sjávarútvegsráðherra að auka þorskkvótann verulega.