sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óska eftir viðbrögðum vegna COVID-19

25. mars 2020 kl. 14:00

LS vill að hrygningarstopp falli niður, ákvæði um veiðiskyldu gildi ekki þetta árið og takmörkun á flutningi ónýttra aflaheimilda milli ára verði afnumin.

Landssamband smábátaeigenda óskar eftir því að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra bregðist við þeim vanda sem COVID-19 hefur í för með sér varðandi fiskveiðar á komandi mánuðum.

Í erindi LS til ráðherra segir að brýnt sé að nú þegar verði fellt úr gildi reglugerð um friðun hrygningarþorsks, en að óbreyttu hefst hrygningarstopp 1. apríl næstkomandi.

Þá óskar LS eftir því að ráðherra leggi fram frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, þar sem annars vegar yrði ákvæði um veiðiskyldu ekki látið gilda fyrir yfirstandandi fiskveiðiár, og hins vegar verði takmörkun á flutningi ónýttra aflaheimilda milli ára afnumin.

LS segist í yfirlýsingu hafa fleiri atriði til skoðunar varðandi áhrif heimsfaraldursins á næstu mánuðum, þar á meðal að gera þurfi breytingar á fyrirkomulagi strandveiða í sumar þannig að veiðileyfi gildi í 48 daga og nái til lengri tíma en fjögurra mánaða.

Þá hefur LS greint frá því að Kristján Þór hafi nú þegar fallist á beiðni um að hlé á grásleppuveiðum teljist ekki til veiðidaga. Ákvæði um samfellda talningu veiðidaga frá upphafi veiða muni ekki eiga við ef skipstjóri eða áhöfn verði fyrirskipað að fara í sóttkví eða einangrun.

Þessi breyting er gerð til að draga úr þeim áhrifum sem farsóttin geti haft á grásleppuveiðar, því sóttkví eða sýking skipverja hefði að óbreyttu orðið til þess að veiðidagar hefðu talið meðan viðkomandi væri forfallaður.