laugardagur, 27. febrúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvarin kör of algeng sjón

19. febrúar 2021 kl. 15:00

Matvælastofnun segir of algengt að fugl komist óhindraður í óvarinn afla á bryggjum landsins. MYND/Matvælastofnun

Matvælastofnun minnir á mikilvægi hreinlætis.

Víða um land hafa eftirlitsmenn á vegum Matvælastofnunar orðið varir við óhreinindi í fiskikörum. Stofnuninni berast einnig reglulega kvartanir frá sjómönnum og fiskkaupendum um óhrein og skemmd löndunarkör.

Matvælastofnun greinir frá þessu í tilkynningu og segir tilefni til að „benda á mikilvægi þess að við löndun úr veiðiskipum og við flutning á afla sé komið í veg fyrir að fiskurinn verði fyrir utanaðkomandi mengun svo sem fugladriti. Þetta krefst þess að kör séu lokuð og að flutningur sé í lokuðum ökutækjum.“

Matvælastofnun sér einnig ástæðu til að „benda sérstaklega á að fiskur sem af slysni fellur úr kari á bryggjuna er ekki hæfur til manneldis.“

Stofnunin bendir á að yfir sumarið séu strandveiðar stundaðar um allt land og aflanum landað í höfnum hringinn í kringum landið: „Löndun á fiski yfir sumarið er því umfangsmikil og brýnt að tryggja viðeigandi hreinlæti og kælingu frá veiði og þar til fiskurinn fer á borð neytenda.“

Stofnunin ítrekar jafnframt að hreinsa þurfi kör eftir hverja notkun og óæskilegt sé að nota fiskikör fyrir annað en matvæli. „Kör til annarra nota skal merkja sem slík og ekki nota aftur fyrir matvæli.“