mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Óvissa í loðnumælingu Norðmanna

23. febrúar 2010 kl. 12:25

Loðnumælingar sem Norðmenn gera að haustlagi í Barentshafi og eru grundvöllurinn að ákvörðun um veiðikvóta á komandi vertíð eru í mörgum tilfellum í litlu samræmi við mælingar sem gerðar eru að vetrinum þegar nær dregur hrygningu loðnunnar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu norsku Hafrannsóknastofnunarinnar. Þar segir að á síðustu árum hafi Norðmenn fylgt fordæmi Íslendinga og ráðist í mælingu á loðnunni að vetrarlagi til viðbótar árlegri haustmælingu til þess að fá nýrri og betri upplýsingar um stærð stofnsins með það fyrir augum að geta leiðrétt útgefinn veiðikvóta ef fyrir því séu forsendur.

Niðurstöður vetrarmælinganna hafa hins vegar leitt í ljós að lítið samræmi er milli þeirra og þess magns sem búast hefði mátt við að skilaði sér til hrygningar miðað við mælinguna haustið áður. Misræmið hefur verið í báðar áttir.

Ef farið hefði verið eftir vetrarmælingunni árið 2009 hefðu engar veiðar verið leyfðar en kvótinn á þeirri vertíð var 390.000 tonn.

Hið gagnstæða gerðist árið 2007. Þá voru engar veiðar leyfðar en vetrarmælingin sýndi að óhætt hefði verið að veiða 80.000 tonn. Þetta mat lá fyrst fyrir um miðjan mars. Það þótti fiskifræðingunum of seint til þess að gera tillögu um loðnuveiði.

Frá þessu er skýrt á vef norsku hafrannsóknastofnunarinnar.