þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Pottar og lukkupottar

19. ágúst 2011 kl. 09:47

Makrílveiðar á handfæri. (Mynd: Kristinn Benediktsson)

2 þúsund tonn úr handfærapotti flutt á togara en leyfi til handfæraveiða framlengt

Í síðustu viku ákvað sjávarútvegsráðherra að flytja 2 þúsund tonn úr handfæra- og línupottinum yfir til skipa án vinnslu sem er flokkur togara og togskipa. Hvert skip fékk í sinn hlut um 57 tonn. Við þetta stækkaði pottur skipa án vinnslu úr 7 þúsund tonnum í 9 þúsund tonn, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Handfærapotturinn var í heild 2.500 tonn í upphafi makrílvertíðar og var honum ekki skipt niður á skip eins og hinum pottunum.

Sjávarútvegsráðherra hefur vald til að flytja veiðiheimildir á milli potta ef fyrirsjáanlegt er að þær náist ekki. Í fyrra kom upp svipuð staða en þá flutti ráðherrann handfærapottinn til uppsjávarskipanna. Í ár duttu sem sagt skip án vinnslu í lukkupottinn.

Eftir þessar breytingar er handfærapotturinn í heild 500 tonn en um 225 tonn hafa verið veidd.

Í gær gaf sjávarútvegsráðherra út reglugerð sem heimilar bátum sem stunda makrílveiðar á handfæri og línu að halda þeim veiðum áfram eftir 1. september 2011. Áður var makrílveiði þessara aðila, sem hafa sameiginlegt aflahámark, takmarkað við veiðar fram til 1. september.