föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ráðast þarf í dýpkun á Viðeyjarsundi

Guðjón Guðmundsson
9. desember 2019 kl. 07:00

Dýpkun á Viðeyjarsundi er ekki síst öryggismál. Aðsend mynd

Regluverk sagt tefja nauðsynlegar dýpkunarframkvæmdir.

Faxaflóahafnir hafa gert athugasemdir við regluverk varðandi dýpkanir hafnarsvæða.  Erindi um viðhaldsdýpkanir hafa tekið tíma og fyrir liggur nauðsynleg dýpkun í Viðeyjarsundi sem tengist aðkomu djúpristra skipa af næstu kynslóð inn að Sundabakka. Verið er að undirbúa matsskyldufyrirspurn þess verkefnis.  Gísli Gíslason hafnarstjóri segist hafa vissan skilning á því að það taki tíma að komast að niðurstöðu um stærri verkefni en bendir jafnframt á að þetta snúi að siglingaöryggi.

„Dýpkun í Viðeyjarsundi er nauðsynleg m.a. í tengslum við byggingu nýs hafnarbakka utan Klepps svo að stærri skip af næstu kynslóð taki ekki niðri og að siglingaöryggi í þessari megingátt sé ekki stefnt í tvísýnu,“ segir Gísli og vísar þar meðal annars til nýrra flutningaskipa sem Eimskip mun taka í notkun á næstu misserum og eru djúpristari en þau sem þau leysa af hólmi.

„Það sem við svo köllum viðhaldsdýpkun og felst í því að hreinsa upp það sem safnast inn í hafnirnar  er einnig orðið vandamál. Ég held að það hafi verið skapað kerfi í kringum þetta sem er í engum takti við veruleikann og við það sem þarf til þess að halda samgöngum í lagi.“

Gísli segir að mörkin séu ansi lág gagnvart þeim verkefnum sem þurfa að fara í umhverfismat með tilheyrandi ferli. Fari efnismagn yfir 150.000 rúmmetra er framkvæmdin umhverfismatsskyld.

„Annað er mikilvægt að hafa í huga en notast þarf við sérhæfðan búnað við verkefni sem þessi, búnað sem yfirleitt liggur ekki á lausu hér  á Íslandi. Við höfum því kvartað yfir því að verið sé að gera einfalda hluti tiltölulega flókna.“

Umsóknir um umhverfismatskylda dýpkun þurfa að berast Skipulagsstofnun en Umhverfisstofnun gefur leyfi fyrir varpi í hafið auk þess sem umsagnaraðilar eru einatt fjölda margir. Gísli segir að ferillinn sé langur og flókinn og henti illa höfnum sem þurfi með tiltölulega skömmum fyrirvara að leysa mál og finna tæki til að leysa verkefnin.

Faxaflóahhafnir hugðu á hreinsun fínefni sem hafði borist út í sjóinn út frá starfsstöð Björgunar við Sævarhöfða enda siglingaleið þar í grennd inn í smábátahöfnina í Bryggjuhverfinu. Til þess að fjarlægja efnið var farið fram á að verkefnið færi í umhverfismat og gáfu Faxaflóahafnir það þá frá sér.