þriðjudagur, 24. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rættist vel úr sumrinu hjá ísfisktogurum Brims

2. september 2019 kl. 10:33

Viðey RE. Mynd/HB Grandi: Kristján Maack

Afla landað í Sauðárkróki og honum ekið til vinnslu í Reykjavík.

Ísfisktogarar Brims hf. voru að veiðum fyrir norðan land í rúman mánuð í sumar og var aflanum landað í Sauðárkróki og honum ekið til vinnslu í Reykjavík.

„Það er óhætt að segja að það hafi ræst vel úr sumrinu,“ segir Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey RE, í viðtali við heimasíðu fyrirtækisins.

„Að vísu hvarf þorskurinn af Vestfjarðamiðum þegar kom fram í júlí en við fórum á eftir honum og það var góð þorskveiði fyrir norðan land í sumar. Reyndar var þorskurinn svo norðarlega að það var oft 10 til 12 tíma sigling inn til Sauðárkróks en það var lítið miðað við siglingartímann suður til Reykjavíkur.“

Áæt ufsaveiði var á Halanum á Vestfjarðamiðum á sama tíma og þorskurinn hvarf en Elli segir að nú sé þorskurinn aftur að skila sér vestur.

„Að þessu sinni fórum við í stutta veiðiferð á Halamið og fengum um 100 tonn af þorski á tveimur sólarhringum. Við tókum svo smávegis af karfa út af Snæfellsjökli á bakaleiðinni og þar með var karfakvóti kvótaársins búinn. Það má segja að við höfum verið að stilla okkur af vegna kvótaáramótanna um helgina,“ sagði Jóhannes Ellert.