sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ramminn hættir við smíði tveggja flakafrystitogara í Noregi

17. nóvember 2008 kl. 15:04

Rammi hf. í Fjallabyggð hefur hætt við smíði tveggja flakafrystitogara sem samið hafði verið um smíði á við Solstrand í Noregi þar sem skipasmíðastöðin stefnir í þrot, að því er Unnar Már Pétursson, fjármálastjóri Ramma hf., sagði í samtali við nýjustu Fiskifréttir.

Rammi hf. samdi um smíði skipanna 16. júní 2006.

Þá kom fram að þessi samningur hefði verið stærsti einstaki nýsmíðasamningurinn sem Solstrand hefði gert.

Samningsupphæðin var 200 milljónir norskra króna fyrir hvort skip, eða 400 milljónir í heild.

Flakafrystitogararnir tveir áttu að vera systurskip, 70 metra langir og 14,7 metrar á breidd, með 8.000 hestafla Wartsilä aðalvél og 1.500 rúmmetra frystilest. Frystigeta á sólarhring átti að vera 80 tonn.

Tafir urðu á verkinu og endursamdi Ramminn þá við Solstrand á þessu ári um að fyrra skipið yrði afhent árið 2009 og seinna skipið 2010.

„Því miður verður ekkert af þessari smíði. Það eru okkur mikil vonbrigði. Við höfum unnið að þessu í þrjú ár og varið til þess bæði tíma og peningum. Verkefni þessa dagana er að ná til baka þeim peningum sem búið var að greiða inn á verkið og reyna að ganga frá lausum endum vegna þessa verkefnis. Við höfum í langan tíma verið að aðlaga fyrirtækið að nýrri framtíðarsýn sem við þessar aðstæður er ekki til staðar og þurfum nú að bregðast við því,“ sagði Unnar Már í samtali við Fiskifréttir.