mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rannsóknir skornar niður

9. janúar 2014 kl. 08:00

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson (Mynd: Einar Ásgeirsson).

Tekjur Hafrannsóknastofnunar dragast saman sem bitnar á haustralli og rannsóknum á úthafsrækju

Staða Hafrannsóknastofnunar er mjög alvarleg vegna samdráttar í tekjum. Einkum er fyrirséð að sértekjur stofnunarinnar minnka. Samdrátturinn mun bitna á mikilvægum rannsóknum, að því er Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við Fiskifréttir.

Jóhann tekur fram að starfsáætlun Hafrannsóknastofnunar liggi ekki fyrir og því sé ekki endanlega ljóst hvar skorið verði niður. „Við þurfum að leggja niður einhvern hluta af mikilvægum leiðöngrum. Við gerum til dæmis ekki ráð fyrir því að farið verði í mælingar á úthafsrækju í sumar. Þá sjáum við heldur ekki fram á að farið verði í stofnmælingar botnfiska í haustralli.“

Hafrannsóknastofnun fær um 1,4 milljarða króna á fjárlögum fyrir árið 2014. Auk þess er gert ráð fyrir 1,1 milljarði í sértekjur. Í heild er áætlað að tekjur Hafrannsóknastofnunar verði um 2,5 milljarðar árið 2014 og dragist saman um meira en 300 milljónir króna milli ára eða yfir 10%.

„Úthald rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunar er stærsti útgjaldaliðurinn. Ekki er hægt að minnka kostnað svo teljandi sé nema fækka úthaldsdögum skipanna. Miðað við stöðuna nú þurfum við að fækka úthaldsdögum verulega eða úr 340 dögum árið 2013 niður í 200 daga árið 2014,“ segir Jóhann.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.