mánudagur, 10. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Refsiaðgerðum hugsanlega hætt í sumar

25. janúar 2016 kl. 12:31

Moskva, Rússland.

Það gæti þýtt að Rússabanninu yrði aflétt.

Bandarískir og franskir ráðamenn hafa undanfarna daga gefið til kynna að refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilunnar verði hætt í sumar. Búast má við að Rússar láti þá af þá gagnaðgerðum, meðal annars gegn Íslandi.Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Evópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki, til dæmis Ísland, hafa beitt Rússland refsiaðgerðum undanfarin misseri vegna innlimunar Krímskaga og stuðnings við aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu.

Rússar hafa meðal annars brugðist við með innflutningsbanni á matvælum frá þessum ríkjum. Íslenskir fiskútflytjendur hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi af þessum sökum.

Í desember var ákveðið að framlengja refsiaðgerðir gegn Rússum um hálft ár með þeim rökstuðningi að þeir uppfylltu ekki skilmála samkomulags sem undirritað var í Minsk í Hvíta-Rússlandi fyrir um ári um vopnahlé í Úkraínu.

Nú virðast hins vegar teikn á lofti um að refsiaðgerðirnar verði ekki framlengdar frekar heldur verði þeim hætt í sumar. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í ræðu á fundi Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss fyrir helgi að ef allir legðust af heilum hug á eitt um að framfylgja Minsk-samkomulaginu verði hægt að afnema þvinganir á næstu mánuðum.

Emmanuel Macron, efnahagsráðherra Frakklands, tók enn dýpra í árinni á fundi í Moskvu í gær þegar hann kvaðst reikna með að í sumar hefðu skilyrði samkomulagsins verið uppfyllt og þá væru forsendur til að hætta refsiaðgerðunum.

Þessi ummæli ráðherranna virðast benda til þess að samskipti Vesturlanda og Rússlands um málefni Úkraínu fari batnandi og bjartsýni ríki um að einhvers konar sátt sé í sjónmáli. Verði sú raunin má búast við að Rússar hætti sínum aðgerðum, þar á meðal þeim sem beinast gegn Íslandi, segir í frétt RÚV.