sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Reglur um hvíldartíma sjómanna þverbrotnar

Svavar Hávarðsson
1. desember 2017 kl. 08:44

Mynd/Davíð Már Sigurðsson

Eftir áramótin verður gerð könnun á vegum sjómannaforystunnar á mönnun og vinnutíma sjómanna

Reglur um hvíldartíma sjómanna eru þverbrotnar, er mat sjómannaforystunnar. Sérstök könnun verður gerð snemma á nýju ári. Einstök fyrirtæki hafa af sjálfsdáðum gert slíkar kannanir og fjölgað á skipum sínum þegar sannaðist að álag var of mikið. Brot á lögum og reglum um hvíldartíma fara ekki lágt heldur eru þau innbyggð í vaktafyrirkomulagið.

Erfitt verkefni
„Okkar áhyggjur eru þær að menn séu að fækka of mikið á þessum nýju skipum. Allar rannsóknir segja okkur það að illa sofinn maður er ekki í stakk búinn til að takast á við erfið verkefni. Það er erfitt verkefni að vera sjómaður,“ sagði Valmundur Valmundsson, framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands, á málstofu um öryggismál sjómanna á málstofu á Sjávarútvegsráðstefnunni 2017.

„Nú er það svo að hvíld á að vera tíu tímar að lágmarki á dag. Við erum að þverbrjóta þetta í dag, svo einfalt er það. Á minni togurum, þar sem eru tíu til ellefu manns í áhöfn, eru staðnar sextán tíma vaktir í beit og því aðeins átta tímar í hvíld. Það verður að breyta þessum hugsunarhætti, við verðum að hvíla menn nóg svo þeir geti tekist á við starfið sitt,“ sagði Valmundur jafnframt en um mikilvægt öryggisatriði er að ræða enda næg hvíld ein besta slysaforvörn sem þekkt er.

16 tíma vaktir
Valmundur segir í viðtali við Fiskifréttir að samkvæmt lögum um hvíldartíma sjómanna er lágmarkshvíld 10 tímar á sólarhring. Það segi sig því sjálft þegar staðnar eru sextán tíma vaktir og átta tíma hvíld að brotalöm sé til staðar.

„En svo kemur texti í lögunum sem segir að hámarksfjöldi vinnustunda á viku megi ekki vera lengri en 48 tímar að meðaltali yfir 12 mánaða tímabil. Sem segir okkur að hægt er að spila með hvíldartímann eins og þurfa þykir. Tímaramminn er alltof víður. Hve alvarlegt þetta er veit ég ekki en grunar að menn brenni fljótt upp í svona vaktkerfum. Slysatíðni er meiri en gengur og gerist og veikindi,“ segir Valmundur.

Haustið 2002 fól samgönguráðuneytið fyrirtækinu Solarplexus að rannsaka þætti er varða hvíld og heilsu sjómanna á íslenskum togurum. Unnið var að rannsókninni með þátttöku útgerða og áhafna nokkurra togara.

Meginmarkmið rannsóknarinnar var að fá vísbendingar um áhrif hvíldar á heilsu og slysatíðni um borð í skipum. Niðurstöðurnar gáfu afdráttarlaust til kynna mikilvægi þess að leggja meiri áherslu á hvíld og á almennt heilsufar sjómanna. Tekið var fram að vegna þekktrar slysahættu á sjó væru hagsmunir atvinnurekanda, starfsmanna og þjóðfélagsins í heild því saman hvað varðar fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir.

Dæmin kalla á breytingar
Orð Valmundar féllu sem viðbragð við erindi Árna Bjarnasonar, formanns Félags skipstjórnarmanna, sem vék að því að núna eftir áramótin verður ráðist í að gera könnun á meðal sjómanna er varðar mönnun og vinnutíma þeirra. Um er að ræða verkefni sem á rætur sínar í kjarasamningsviðræðum sjómanna og útgerðarmanna í vetur leið. Eins og málið var lagt upp mun könnun á uppsjávarskipum og ísfisktogurum verða sett í forgang, en aðrir fiskiskipaflokkar fylgja svo á eftir.

„Þessi könnun, sem verið er að hrinda í framkvæmd, er virkilega jákvætt skref til eflingar öryggisþáttarins um borð í fiskiskipum og mjög mikilvægt að vel takist til við framkvæmd hennar,“ sagði Árni en gerði það að tillögu sinni að lögum og reglum yrði breytt á þá lund að það væri skipstjórinn um borð í hverju skipi sem tækju ákvarðanir um mönnun. Það væri hann sem væri til þess hæfastur – bæði við að meta mönnunarþörf út frá öryggi og meðferð hráefnis um borð.

„Hann ber ábyrgðina á þessu öllu, þegar öllu er á botninn hvolft,“ sagði Árni og bætti við. „Ástæðan fyrir því að þetta var tekið upp í samningunum er að lýsingarnar sem við höfum fengið víða að, eru þannig vaxnar að við teljum fulla ástæðu til að bæta úr – sérstaklega þar sem mesta framúrkeyrslan er á þessu sviði.“

Full ástæða er til að binda vonir við slíka könnun kom fram á fundinum. Könnun sem þessi hefur þegar verið gerð á uppsjávarskipum HB Granda, og varð niðurstaðan sú að fjölga í áhöfn um einn mann á hverju skipi. Þetta upplýsti Snæfríður Einarsdóttir, forstöðumaður öryggismála fyrirtækisins, á fundinum. 

Árni nefndi að áhugi stjórnvalda á öryggi sjómanna virtist ekkert sérstaklega mikill og tók dæmi.

„Á sínum tíma barst okkur beiðni um endurtilnefningu í verkefnisstjórn langtímaáætlunar um öryggismál sjófarenda þann 27. september 2011 og var brugðist við því og tilnefnt af hálfu FFSÍ. Skipunarbréf ráðuneytisins barst hins vegar ekki fyrr en 2. júní 2015 eða tæpum 4 árum seinna sem óneitanlega er vísbending um að betur hefði mátt standa að málum,“ sagði Árni.

Framfarir
Ef greina mátti rauðan þráð á málstofunni þá er hann kannski sá að gríðarlegar framfarir hafa átt sér stað. Rætt er um tímabilið fyrir Slysavarnarskóla sjómanna og eftir – svo mikið er hann talinn hafa haft að segja. Bæði við að þjálfa sjómenn í réttum viðbrögðum þegar eitthvað fer úrskeiðis, og ekki síður hvað varðar forvarnaþátt starfsins.  

Tölfræðin segir sitt; 403 íslenskir sjómenn létust á árabilinu 1971 til 2010 við vinnu sína á Íslandsmiðum, eða tíu menn árlega að jafnaði, þar af 21 á árunum 2001 til 2010.

Geirþrúður Alfreðsdóttir, formaður Rannsóknanefndar samgönguslysa (RS), flutti erindi á málstofunni þar sem hún vék að því hvað sé hægt að gera til að auka öryggi sjómanna og bæta öryggismenningu sjómanna og fyrirtækja í sjávarútvegi. Undir þennan þátt fellur svo sannarlega hvíld og vinnuálag sjómanna, var mál manna.

Hún útskýrði að öryggismenning er hugarfarið um það hvað eru eru eðlilegar öryggisráðstafanir – sem getur verið mjög mismunandi eftir aðstæðum, atvinnugrein eða fyrirtækjum. Innan fyrirtækjanna þarf slíkt hugarfar að ná til allra starfsmanna og stjórnenda eigi vel að vera.

Geirþrúður tók dæmi um öryggismenningu sem allir þekkja – að hjálmanotkun er sjálfsögð við ýmsa tómstundaiðkun og það sem áður þótti sjálfsagt þykir í dag vítavert kæruleysi. Sama á við um notkun öryggisbelta.

„En hvernig er öryggismenningin í sjávarútvegi. Hún er mjög mismunandi eftir útgerðum, en hefur batnað mikið á undanförnum árum og miklar breytingar átt sér stað,“ sagði Geirþrúður en gagnrýndi sérstaklega það sem hún sagði áberandi að sjómenn kæmu að landi með afla sem væri í sumum tilfellum langt yfir hleðslumörkum bátsins. Aftur spurning um hugarfar og öryggismenningu.

Eitt slys – 600 atvik
Geirþrúður sagði afar mikilvægt að sem flest slys og óhöpp væru tilkynnt til RS, enda hafi rannsóknir sýnt að fyrir hvert alvarlegt slys sem tilkynnt er eru tíu önnur ekki eins alvarleg; þar að baki eru hins vegar 600 atvik þar sem litlu munaði að illa færi. Sem flest af þessu vill RS fá tilkynningar um, svo hægt sé að sjá hvar mögulegt er að bæta öryggi sjómanna. Á þessu er hins vegar misbrestur, og í raun eitthvað sem þarf að bæta í öryggismenningu útgerðarinnar og hjá sjómönnum; að láta vita af hvað fór úrskeiðis. Að óbreyttu tapist mikilvægar upplýsingar sem væri hægt að nýta til að kortleggja hætturnar og koma í veg fyrir að óhöpp og slys endurtaki sig.

Benti Geirþrúður á að tilkynningar til RS fengu tilkynningar um 53 slys árið 2016 en Sjúkratryggingar Íslands fengu tilkynningu um 214 slys. Var það mál manna á fundinum að þetta yrði leiðrétta. Samræma þyrfti skráningu og gera mönnum auðveldara um vik að gefa allar þær upplýsingar sem eðlilegt sé að fari til rannsóknanefndarinnar.