mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rúmlega 30 íslensk fyrirtæki í Brussel

2. maí 2014 kl. 14:30

Sjávarútvegssýningin í Brussel. Bás Samherja á fyrri sýningu.

Búist við 500-1.000 Íslendingum meðan sjávarútvegssýningin stendur.

Búast má við að milli 500 og 1000 Íslendingar séu í Brussel meðan á sýningunni stendur, sýnendur og gestir. Sýningin sem haldin er í 22. sinn í ár er stærsta sjávarútvegssýningin í heimi og sú mikilvægasta. Um 1.700 sýnendur frá 75 löndum taka þátt og gestir eru um 25.000 frá 140 löndum. 

Íslandsstofa sér um skipulagningu og uppsetningu á sýningaraðstöðu stærsta hluta íslensku fyrirtækjanna sem taka þátt í sýningunum í Brussel 6.-8.maí og sér til þess að þarfir þeirra varðandi vinnuaðstöðu séu uppfylltar þannig að þau geta einbeitt sér að sölu- og markaðstarfssemi. 

Tveir íslenskir þjóðarbásar eru á sýningunni, á afurðasýningunni í höll 6 og á tækjasýningunni í höll 4, samtals 750 fm. Auk fyrirtækjanna sem eru á þjóðarbásunum eru nokkur íslensk fyrirtæki með eigin bása, s.s. Marel, Promens, Icelandic, Iceland Seafood og Samherji og eru því íslensku fyrirtækin að leggja undir sig um 1.500 fm á sýningunni. Þá mun markaðsverkefni saltfiskframleiðenda og útflytjenda verða kynnt á sýningunni. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun heimsækja sýninguna og kynna sér markaðs- og kynningarstarf íslensku sýnendanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.