laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rússar loka á makríl og síld frá Færeyjum

3. desember 2013 kl. 17:13

Makríll (Mynd af vef Matís).

Segja það gert af heilbrigðisástæðum.

Rússnesk stjórnvöld hafa lagt innflutningsbann á makríl- og síldarafurðir frá tveimur framleiðendum af þremur í Færeyjum. Sú ástæða er gefin upp að þessar afurðir hafi ekki mætt heilbrigðiskröfum í Rússlandi, með öðrum orðum að gerlamagn í vörunum hafi verið of hátt. 

Umræddar vörur komu annars vegar frá Vardin Pelagic og hins vegar frá vinnsluskipinu Norðborg. Þriðja fyrirtækið, Faroe Pelagic í Kollafirði hefur ekki fengið neinar athugasemdir. 

Bogi Jacobsen framkvæmdastjóri Vardic Pelagic furðar sig á afstöðu Rússanna í samtali á færeyska vefnum portal.fo. Hann segir að strangt eftirlit sé haft með framleiðslu fyrirtækisins og sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar eftir að upp kom grunur fyrir allnokkru um að ekki væri allt sem skyldi. Sýni úr framleiðslunni hafi verið send daglega til Matvælastofnunar Færeyja til rannsóknar og engar athugasemdir hafi borist þaðan. Bogi veltir því fyrir sér hvort keppinautar Færeyinga séu á einhvern hátt viðriðnir málið og hafi viljandi mengað makríl- og síldarafurðir frá Færeyjum. 

Sem kunnugt er lagði ESB innflutingsbann á síldar- og makrílafurðir frá Færeyjum fyrr á árinu í refsingarskyni og er Rússland því gríðarlega mikilvægur markaður fyrir þessar vörur. Bogi segir að sem betur fer sé makrílvertíðin búin og mest af afurðunum hafi þegar verið selt, en í janúar hefjist loðnuvertíðin og þá ríði á að málin hafi verið leyst.