mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rússar setja sölubann á norskan fiskinnflutning

2. janúar 2014 kl. 12:07

Frá Moskvu

Bannið nær til 485 norskra fiskvinnslufyrirtækja.

Um áramótin tók gildi bann rússneskra heilbrigðisyfirvalda við því að fluttar væru inn fiskafurðir frá 485 norskum sjávarvöruframleiðendum. Bannið er sagt tilkomið vegna þess að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki uppfyllt kröfur Rússa um heilnæma framleiðsluhætti. 

Bannið nær til allra framleiðslufyrirtækja uppsjávarfisks og hvítfisks í Noregi sem ekki hafa verið skoðaðar síðan árið 2000. Fyrirtækin þurfa nú að bíða þar til fulltrúar rússnesku eftirlitsstofnunarinnar Rosselkhoznadzor hafa lokið skoðun sinni á fyrirtækjunum. Norska matvælaeftirlitið vinnur að því að slík skoðun verði framkvæmd sem allra fyrst. 

Rússar voru stærstu kaupendur sjávarafurða frá Noregi á síðasta ári mælt í magni, en þeir keyptu 324.000 tonn af fiski fyrir næstum 120 milljarða íslenskra króna. 

Norðmenn eru langt í frá eina þjóðin sem Rússar hafa beitt innflutningsbanni af þessu tagi vegna sjávarafurða. Skemmst er að minnast þess að nokkrar uppsjávarvinnslur í Færeyjum lentu í hinu sama nú undir loks ársins, eins og fram kom hér á vefnum. 

Stærstu markaðirnir sem sætt hafa aðgerðum af þessu tagi af hálfu Rússa, samkvæmt rússnesku fréttastofunni Interfax, eru Kína, Spánn, Litháen, Eistland og Víetnam.