mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rýmt fyrir nýju skipunum

Guðsteinn Bjarnason
7. janúar 2019 kl. 15:00

Vörður EA er smíðaður 2007. MYND/Fisk Seafood ehf.

Gjögur á Grenivík selur tvo skuttogara til Fisk Seafood á Sauðárkróki

Milli jóla og nýárs gengu Fisk Seafood ehf. á Sauðárkróki og Gjögur hf. á Grenivík frá samningi um kaup Fisk á tveimur skipum frá Gjögri.

Þetta eru skuttogararnir Vörður EA-748 og Áskell EA-749. Verðmæti skipanna er, samkvæmt fréttatilkynningu frá Fisk Seafood, tæplega 1,7 milljarðar króna miðað við gengisskráningu þann 28. desember, en þá var gengið frá kaupunum. Skipin verða afhent í lok júlí á næsta ári en um sama leyti frá Gjögur tvö ný skip til afhendingar frá Noregi.

„Við erum að smíða ný skip og þá vantaði væntanlega skip,“ sagði Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gjögurs, þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans. „Það er nú ekki flóknara.“

Nýju skipin tvö, sem Gjögur fær afhent á árinu, eru framleidd af Vard í Noregi og partur af raðsmíði sjö nýrra togara sem fjögur íslensk útgerðarfyrirtæki standa að.

Auk skipanna tveggja fyrir Gjögur er Vard að smíða tvö skip fyrir Berg-Hugin, sem er dótturfélag Síldarvinnslunnar, tvö fyrir Skinney-Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa. Þessi sjö skip verða öll 28,95 metrar að lengd og 12 metrar að breidd, hvert með tvær aðalvélar með tveimur skrúfum ásamt nýrri kynslóð rafmagnsspila frá Seaonics en fyrirkomulag og val á búnaði annars ákveðið í samstarfi við útgerðirnar.

Jafnframt keyrpi Fisk Seafod tæplega 660 tonn af aflaheimildum frá Gjögri, sem skiptist þannig að tæplega 350 tonna ufsakvóti og 245 tonna djúpkarfakvóti gengur til Fisk ásamt smærri heimildum í löngu, blálöngu, keilu, skötusel og þykkvalúru. Eftir kaupin verða aflaheimildir Fisk Seafood tæplega 23 þúsund tonn eða um sex prósent af úthlutuðum aflaheimildum fiskveiðiársins 2018-2019.

Liður í endurskipulagningu

Í fréttatilkynningu frá Fisk segir að skipakaupin séu liður í endurnýjun og endurskipulagningu á flota félagsins.

„Með nýjum skipum í stað hinna eldri eykst öryggi um borð og aðbúnaður batnar til muna,“ segir í tilkynningunni. „Endurnýjun er innig ætlað að efla hagkvæmni í rekstri, fjölga heppilegum fiskimeiðum með tilheyrandi fjölbreytni veiðanna, bæta meðferð aflans og auka um leið verðmæti hans.“

Fisk Seafood gerir út frá Skagafirði frystitogarana Málmey SK og Drangey SK, en Drangey er nýtt skip, smíðað 2017. Málmey er frá 1987. Auk þess gerir Fisk út frystitogarann Arnar HU frá Skagaströnd, en hann er frá árinu 1986. Þá gerir Fisk út frá Grundarfirði togbátinn Farsæl SH og fjölveiðiskipið Hannes Andrésson SH, en þau skip eru einnig komin til ára sinna.

Vörður var smíðaður árið 2007 hjá Nordship í Póllandi. Skipið er tæplega 29 metra langt, ríflega 10 metrar á breidd, 285 rúmlestir og 485 brúttó tonn að þyngd. Áskell er stálskip sem smíðað var hjá skipasmíðastöðinni Ching Fu í Taiwan árið 2009. Skipið er tæplega 29 metra langt, rúmlega 9 metra breitt og 362 brúttó tonn að þyngd.