föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rýnt í leyndardóma hrognkelsanna

Guðsteinn Bjarnason
2. mars 2019 kl. 09:00

Grásleppa með merki frá BioPol. MYND/ÞB

James Kennedy hjá BioPol á Skagaströnd hefur stundað grásleppurannsóknir um árabil.

Sjómönnum bjóðast fimm þúsund krónur fyrir hvert hrognkelsi sem veiðist, ef á fisknum er merki frá BioPol á Skagaströnd. Fiskurinn þarf þó að vera heill.

James Kennedy hefur um árabil unnið ásamt samstarfsfélögum sínum að rannsóknum á hrognkelsum. Hann er starfsmaður Hafrannsóknastofnunar með aðsetur á líftæknisetrinu BioPol á Skagaströnd.

Hrognkelsamerkingar eru ómissandi partur af þessum rannsóknum, en í merkjunum eru rafrænar upplýsingar sem meðal annars segja til um stað og stund merkingar.

Nú auglýsir BioPol eftir merktum hrognkelsum og býður fimm þúsund krónur fyrir hvern fisk. Sjómenn eru beðnir um að hafa samband við BioPol komi merktur fiskur í aflann.

„Við vitum ekkert ennþá hve margir þeirra skila sér, eða hvar hann veiðist,“ segir James. „En hugmyndin er að ef einhver veiðir fisk þá hafi hann samband við okkur. Almennt séð er best að frysta fiskinn heilan og við sjáum svo til þess að hann verði sóttur.“

Undarleg í laginu

„Hrognkelsi eru svo undarleg í laginu,“ segir James, en þetta veldur því að erfitt er að mæla lengd þeirra.

„Það er hægt að mæla grásleppuna á hundrað vegu. Þess vegna viljum við fá fiskinn heilan til okkar svo við getum sjálf mælt hans eins og við höfum alltaf gert.“

Síðasta sumar voru um 200 fiskar merktir á hefðbundinni veiðislóð inni á Húnaflóa og einnig voru um 290 ungir fiskar merktir í alþjóðlega makrílleiðangrinum norður og suður af Íslandi og við austurströnd Grænlands.

Þegar upplýsingar berast um hvar og hvenær fiskurinn veiðist, þá segir það ýmislegt um ferðir hans. Með því að skoða fiskinn er sömuleiðis hægt að sjá hvernig honum hefur vegnað í hafinu.

Margt á huldu

„Það er margt sem við vonumst til að fá út úr þessu. Við vitum núna að hrognkelsið er á hafsvæðinu allt frá Grænlandi yfir til Ísland og þar fyrir norðan og síðan yfir Noregshaf til Barentshafs. En við vitum ekkert hvaða fiskar hrygna við Ísland og hverjir fara til Noregs. Þess vegna merktum fiska bæði í íslenska makrílleiðangrinum og við Grænland,“ segir James.

„Við höldum að fiskurinn við Grænland komi til Íslands því líklega hrygna hrognkelsin ekki við austanvert Grænland, en það vitum við samt ekki fyrir víst. Við vitum ekki heldur hve gamalt hrognkelsið verður eða hve lengi það dvelur í djúpsjó, þannig að það verður áhugavert að sjá hvenær þessir fiskar skjóta upp kollinum í afla. Við vitum heldur ekki hve hratt þeir vaxa, þess vegna viljum við fá fiskinn aftur svo við getum mælt fiskinn,“ segir James.

„Við vitum líka mjög lítið um hænginn, en margir fiskanna sem við merktum í makrílleiðangrinum voru rauðmagar.“

Ný þekking

Með rannsóknum sínum undanfarin ár hafa James og félagar hans samt komist að ýmsu sem ekki var áður vitað um hrognkelsin. Eitt af því er að hrognkelsið er mun víðförulla en áður var talið.

„Við erum líka búin að komast að því núna að þegar þau hrygna, sem er allt frá mars fram í ágúst, þá er það svoleiðis að þeir fiskar sem hrygna í mars munu líklega hrygna um svipað leyti árið eftir, en ef fiskurinn hrygnir í ágúst þá hrygnir hann líklega í ágúst á næsta ári. Við vitum ekki alveg hvaða áhrif þetta hefur á stofninn, vegna þess að veiðarnar eru mest stundaðar í apríl og mars, þannig að fiskurinn sem hrygnir í ágúst á miklu betri möguleika á því að hrygna, af því það eru minni líkur á að hann veiðist.“

James segir heldur ekki vitað af hverju hrognkelsið hrygnir yfir svona langt tímabil. Margar aðrar fisktegundir eins og þorskur og síld hrygna ekki nema í fimm eða sex vikur.