föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Rýnt í lífríki miðsjávarins

Guðsteinn Bjarnason
28. janúar 2019 kl. 07:00

Sýni tekin úr sjó. MYND/Svanhildur Egilsdóttir

Í miðsjónum, milli uppsjávar og botnsjávar, er talið að tíu þúsund milljónir tonna af fiski sé að finna, og jafnvel annað eins af öðrum sjávarlífverum.

Hafrannsóknastofnun fær um 100 milljónir til þátttöku í fjögurra ára alþjóðlegri rannsókn á lífríki miðsjávarins.

MEESO-rannsóknaverkefnið er til fjögurra ára, hefst haustið 2019 og lýkur haustið 2022. Þátttakendur eru auk Hafrannsóknastofnunar meðal annarra norska hafrannsóknastofnunin, Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) og norska matvælastofnunin Nofima.

Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur á Hafrannsóknastofnun, mun stýra stærsta þætti verkefnisins, er lýtur að kortlagningu auðlinda í miðsjónum.

Hann kynnti verkefnið með því að flytja erindi á Hafró fyrr í mánuðinum, en þetta erindi er að finna á Youtube-rás stofnunarinnar. Þar sagði Ástþór miðsjóinn vera þann hluta hafsins sem er á 200 til 1000 metra dýpi. Hann er um það bil 20 prósent af heildarrúmmáli hafsins og er talið að þar sé að finna um 10.000 milljónir tonna af fiski.

„Fyrstu áætlanir um lífmassa hljóðu upp á að í heimshöfunum öllum væru um þúsund milljón tonn. Þetta fyrsta mat var að einhverju leyti byggt á bergmálsmælingum en eins á mælingum með uppsjávarvörpum og menn grunaði að þetta væri vanmat,“ sagði Ástþór.

Hundraðfaldur heimsaflinn
„Nýrri rannsóknir hafa leitt í ljós að magnið er alla vega tíu sinnum meira, og þar erum við bara að tala um fiska, í öllum heimshöfum reyndar.“

Til samanburðar nefnir hann að allur fiskafli í heiminum nemi um hundrað milljónum tonna ár hvert, „þannig að þarna í þessum miðsjávarlögum er kannski hundrað sinnum meira heldur en heimsaflinn. Það endurspeglar hvað það er mikill fiskur þarna.“

Því sé ekki að undra að menn séu teknir að velta fyrir sér nýtingu miðsjávarlífríkisins. Miðsjávarlífverur geti nýst sem skepnufóður og fóður í fiskeldi. Þær geti nýst sem áburður, og í þeim gætu verið ýmis lífvirk efni sem menn vita kannski lítið um.

„Svo mætti nýta þetta til manneldis. En í sambandi við alla nýtingu þá skyldu menn hafa í huga að þessar miðsjávarlífverur skipta miklu máli í sambandi við kolefnishringrásina,“ bætti Ástþór við. Sumar þeirra éta í efri lögum sjávar á nóttinni og fari svo niður í dýpri lög á daginn. Þannig flytja þær lífrænt kolefni og stuðla þannig að því að því að koltvísýringur andrúmsloftsins flyst niður í dýpri sjávarlög, „þannig að menn skyldu taka mið af því.“

Norræna gulldepla
Ástþór gerði grein fyrir fyrri tilraunum Íslendinga til að veiða úr miðsjónum. Fyrst var þetta prófað árið 2002 yfir Reykjaneshrygg, en þær tilraunir báru lítinn árangur.

Næst fóru menn af stað árið 2009 þegar vart varð við mikið af norrænu gulldeplu við landgrunnsbrúnirnar suðvestur af Reykjanesi. Tilraunaveiðar voru gerðar næstu árin á ýmsum árstímum og var norræna gulldepla mest áberandi í afla. Alls veiddust 46 þúsund tonn árið 2009, 18 þúsund tonn árið 2010 og 9 þúsund tonn árið 2011.

Þar kom í ljós að norræna gulldepla virtist þéttast við landgrunnskantana á haustin og hverfa svo á vorin. Þá var meiri afli á daginn en á nóttunni.

Loks voru gerðar veiðitilraunir um vikuskeið í maímánuði árið 2016. Þrjú skip tóku þátt í þeim veiðum en veiði var mjög lítil. Mest veiddist af ísalaxsíld, en einnig kom mikið af ljósátu og marglyttum í aflann.

Betri sýn
Ástþór greindi jafnframt frá því að til að kanna lífríkið í miðsjónum duga hefðbundnar bergmálsmælingar skammt. Það er vegna þess að sú lága endurvarpstíðni sem yfirleitt er notuð „sér“ eingöngu endurkastið af lífverum með sundmaga eða loftfylltar blöðrur, aðallega fiska. Varla nokkur leið er að „sjá“ flestar tegundir hryggleysingja en þeir eru taldir geta verið allt að helmingur lífmassans í miðsjávarlögum hafsins.

Því þarf að grípa til þess ráðs að breikka tíðnisvið bergmálsmælinganna. Smærri lífverur svo sem ljósætur, marflær og marglyttur, sjást mun betur á hærri tíðni en þeim 38 kílóriðum sem algengast er að notast við.

Vandinn er samt sá að hærri tíðni dregur ekki eins langt og lægri tíðni. Bergmálstæki hafa hingað til verið fest við botn skipa, en til að skoða miðsjávarlífríkið þyrfti að vera hægt að fara neðar í sjóinn með bergmálstækin. Hafrannsóknastofnun hefur séð við því.

„Við erum nýbúin að festa kaup á bergmálstæki sem hægt er að slaka niður eins og sondu,“ sagði Ástþór.