sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Saltfiskurinn og sögurnar

7. júní 2018 kl. 14:00

Skólakrakkar taka hraustlega til matar síns. Plokkfiskurinn er í uppáhaldi. MYND/GUNNAR FREYR GUNNARSSON

Íslandsstofa tengir saman fólkið og fiskinn í Vestmannaeyjum

Frá árinu 2013 hefur Íslandsstofa í samstarfi við Íslenska saltfiskframleiðendur (ÍSF) haldið utan um markaðsverkefni þar sem íslenskur þorskur er kynntur í Suður Evrópu. Yfirskrift verkefnisins er „Smakkaðu og deildu leyndarmáli íslenska þorsksins“ og hafa Spánn, Ítalía og Portúgal verið áherslumarkaðir. Markmiðið með verkefninu er að styrkja orðspor og ímynd íslenskra saltfiskafurða sem úrvals afurða með því að vekja athygli á íslenskum uppruna og sérstöðu sem tengist gæðum og hreinleika.

Mikilvægur þáttur í kynningunni er að nýta vef- og samfélagsmiðla til að miðla sögum sem styðja við boðskap um gæðin sem neytendur í Suður Evrópu kynnast þegar þeir borða íslenska fiskinn.

Sögunar sem hafa verið sagðar síðustu árin í þessu markaðsverkefni eru sannar sögur, sögur um duglegt fólk sem skapar verðmæti fyrir íslenskt þjóðarbú.

„Við höfum farið víða um land og tekið myndir og framleitt video og sagt sögur um saltfiskinn og mannlífið í sjávarbyggðunum. Nú þegar hafa fimm staðir á landinu verið heimsóttir: Grindavík, Snæfellsbær, Höfn, Patreksfjörður og nú síðast Vestmannaeyjar. Fjölmargar sögur um íslenska þorskinn hafa nú verið birtar á samfélagsmiðlum verkefnisins í löndunum þremur og hafa sögurnar svo sannarlega vakið áhuga fólks víða í Suður Evrópu,“ segir Björgvin Þór Björgvinsson, verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu.

Úr fiski í atvinnumennsku og aftur í fiskinn

Í mars sl. var haldið til Vestmannaeyja en þar er einmitt fyrirtæki sem tekur þátt í verkefninu. Fótboltinn og tengingin við heilsu og hollustu var tekin inn í þemað að þessu sinni vegna athyglinnar sem þátttaka Íslands í HM vekur, og Vestmannaeyjar er mikill fótboltabær.

„Vegna þátttöku Íslands á HM í Rússlandi hefur sérstök áhersla verið hjá Íslandsstofu á að safna fylgjendum Íslands á samfélagsmiðlum í gegnum verkefnið #TeamIceland (Inspired by Iceland) og mun þetta framtak okkar í saltfiskverkefninu því falla vel að þessari áherslu.

Ein sagan er um knattspyrnumanninn Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem vann ungur maður í fiskvinnslu eins og svo margir Eyjamenn. Eftir farsælan feril sem atvinnumaður erlendis kemur Gunnar Heiðar heim til Eyja og starfar í dag í sjávarútveginum. Þá tökum við fyrir börnin í leikskólunum og grunnskólum sem vaxa úr grasi í sjávarútvegsbæ og við tengjum það við fiskinn.  Einsi kaldi, sem bæði rekur veitingastað og veisluþjónustu í Eyjum, hefur gert garðinn frægan með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta, en hann eldar fyrir landsliðið í keppnisferðum þeirra. Hann kemur inn í okkar sögur þar sem hann eldar fyrir krakkana í skólunum og er plokkfiskurinn hans Einsa uppáhaldsmatur marga.

Einsi kaldi

Vestmannaeyjar státa af mörgum góðum matreiðslumönnunum og veitingastöðum starfsemi þeirra setur sterkan svip á matarmenninguna í Eyjum. Við fengum því að fylgjast með Gísla Matthíasi á Slippnum og fjölskyldu hans sem leggja mikla áherslu á góðan fisk og gott hráefni á veitingastaðnum.  er Gísla er fylgt eftir þar sem hann sækir sitt hráefni úr matarkistunni í Eyjum, fjörunni og úti á sjó.“

Björgvin segir það mjög dýrmætt fyrir árangurinn í verkefninu að allir sem leitað hefur verið til um að taka þátt í að framleiða efnið, fólkið sem býr og starfar á þessum stöðum, hefur verið gríðarlega jákvætt og tilbúið að leggja verkefninu lið.

Fyrstu sögurnar úr Vestmannaeyjaferðinni fara í birtingu á næstunni og verður gaman að fylgjast með viðtökunum mitt í HM veislunni.