sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sandsílið nær sér á strik

Guðsteinn Bjarnason
11. september 2021 kl. 07:00

Sérstakur sandsílaplógur er notaður við vöktun sandsílis. MYND/Valur Bogason

Eftir margra ára lægð sandsílastofnsins finnst hann nú í meiri þéttleika en sést hefur frá því vöktun hófst árið 2006. Valur Bogason segir ekki hægt að fullyrða að makríllinn eigi einn sök á hrakförum sílisins.

„Við sáum mikla breytingu við Vestmannaeyjar,“ segir Valur Bogason, sjávarvistfræðingur á Hafrannsóknastofnun. Hann er nýlega kominn úr leiðangri þar sem ástand sjávars og grunnsævið var kannað og er vöktun á sandsíli við suður- og vesturströnd landsins hluti af þeim rannsóknum.

„Fyrstu niðurstöður eru að á öllum svæðum sem við skoðuðum núna erum við að fá mesta þéttleika sem við höfum séð frá árinu 2006. Hins vegar þarf að hafa í huga að þegar vöktun hófst var sandsílið byrjað að gefa eftir og því ekki hægt að segja til um hvað þéttleiki var mikill í eðlilegu árferði áður en þessi lægð í sandsílastofninum hófst.“ 

Sandsílið virðist því vera að ná sér á strik aftur, að minnsta kosti í bili, og mest er aukningin við Vestmannaeyjar þar sem varpárangur lundans var einnig sá besti í 20 ár. 

Valur sagði að úrvinnsla sandsílagagna væri á frumstigi. 

„Það er ekki búið að aldurslesa, en miðað við lengdardreifingu sýnist mér við vera með tvo árganga og jafnvel þrjá sem gefur jákvæð fyrirheit inn í framtíðina. Í fyrra vorum við mest að sjá einn árgang, eins árs síli, en maður horfið svolítið á seiðin. Maður veit aldrei hvernig þau skila sér eins árs. Það koma ár þar sem er seiði eru mest áberandi en þau hafa síðan ekki náð að skila sér sem eins árs nýliðar.“ 

Hafrannsóknastofnun hefur allt frá árinu 2006 fylgst með sandsílinu á grunnslóð við landið á fjórum stöðum: í Breiðafirði og á Faxaflóa, við Ingólfshöfða og á svæðinu frá Vík til Vestmannaeyja. Ekki tókst þó að safna gögnum við Ingólfshöfða í ár vegna brælu.

„Við vorum í leiðangri þar sem er lítið svigrúm fyrir tafir. Við notum léttan sandsílaplóg sem er togaður á 2 sjómílna hraða sem gerir athuganir viðkvæmar fyrir veðri. Af þeim sökum gátum ekki tekið stöðvarnar við Ingólfshöfða. En við sáum aukningu í fyrra á öllum svæðunum, þannig að ég á alveg von á því að það sé meira þar líka“ 

Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort tilkoma makrílsins eigi einhvern þátt í því að sandsílið nánast hvarf, og brotthvarf makrílsins nú sé þá skýringin á því að sandsílið virðist vera að ná sér á strik. Valur segir þó ekki hægt að fullyrða neitt um það. Málið sé flóknara. 

„Málið er að sílið, sem er bara á grunnslóð, var byrjað að gefa eftir áður en makríllinn kom upp á grunnslóð. En makríllinn hefur eflaust haft einhver áhrif, bæði með afráni á sandsíli og samkeppni um fæðu. Þetta eru samt örugglega fleiri þættir sem hanga saman. Við höfum ekki getað bent á neinn einn þátt, en má að öllum líkindum rekja til þeirra umhverfisbreytinga í hafinu sem hafa orðið með hækkandi hitastigi.“ 

„Að vísu hefur þetta verið með hléum. Það voru engir leiðangrar 2014 og 2015, og við vöktuðum bara tvö svæði árið 2016. Svo náðist ekki að safna gögnum við Ingólfshöfða í ár, vegna brælu.“ 

Vonandi geti orsakasamhengið þó skýrst eftir því sem lengra líður. 

„Líkurnar aukast á að við náum að tengja þetta við einhverja ákveðna umhverfisætti eftir því sem fleiri ár bætast við vöktunina og fáum fleiri punkta til samanburðar. Við vitum til dæmis ekki hvort þetta eru bara tvö eða þrjú góð ár núna. Tíminn leiðir það í ljós.“